top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Almenn lög og kunningjalög


Hinn 22. júní s.l. kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að Markús Sigurbjörnsson hefði uppfyllt hæfiskröfur til að dæma í sakamáli gegn manni, sem hafði ásamt fleirum verið sakaður um að bera ábyrgð á falli Íslandsbanka hf. á árinu 2008. Fyrir lá að Markús hafði tapað 7,6 milljónum króna við fall bankans, en fjárhæðin var að verðgildi um 13-14 milljónir, þegar hann tók þátt í að kveða upp dóm yfir manninum á árinu 2015. Um þetta vissi enginn þá.


Nú er rætt um að starfandi dómarar hyggist bera undir dómstóla réttmæti frádráttar frá launum sínum vegna ofgreiðslu á síðustu þremur árum, sem mun standa til að framkvæma á næstu 12 mánuðum. Fjárhæðir hjá hverjum og einum dómara nema aðeins nokkur hundruð þúsund krónum, eða broti af fjárhæðinni hjá Markúsi dómara.


Samt virðast allir vera sammála um að starfandi dómarar verði vegna hagsmuna sinna vanhæfir til að sitja í dómi þar sem um þetta verður dæmt.


Kannski að í landinu gildi tvenn lög, almenn lög og kunningjalög?


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page