top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Utan valdheimilda

Það vakti mikla athygli að Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) skyldi í dómi sínum nýverið, skrifa 260 blaðsíðna dóm til að taka til greina kröfur nokkurra svissneskra kvenna um að brotið hefði verið gegn rétti þeirra með því sem nefnt hefur verið loftlagsvá. Langur texti í forsendum dóms er yfirleitt alltaf vísbending um að verið sé að dæma einhverja vitleysu. Þetta varð ég oft var við í starfi mínu sem dómari í Hæstarétti Íslands og hef látið þess getið í skrifum mínum, eftir að ég lét af því starfi. Starf dómara er nefnilega aðallega fólgið í því að finna kjarna hvers dómsmáls og skrifa svo knappan en skýran texta um hann í forsendurnar.

 

Ég held að sú viðleitni hafi farið vaxandi á síðari tímum að dómstólar, bæði innan lands og utan, taki sér vald sem þeir hafa ekki. Menn verða að hafa hugfast að við búum við fyrirkomulag sem við nefnum lýðræði, en í því felst að þjóðfélagsvaldið sé komið frá fólkinu sjálfu í því ríki sem í hlut á. Þar er það löggjafinn sem setur lögin. Það gerir hann á grundvelli umboðs frá almenningi sem kýs þá sem skipa löggjafarsamkunduna með reglubundnu millibili. Í kosningum felst hvort tveggja, ábyrgð löggjafans á gjörðum sínum í liðnum tíma og umboð hans til að fara með hið sama vald áfram um takmarkaðan tíma framundan. Dómstólar fara ekki með neitt slíkt vald.  Þeir hafa ekkert lýðræðislegt umboð til starfa sinna og þurfa aldrei að standa neinum skil á ábyrgð sinni. Í grundvallarreglum sem starfsemi þeirra byggist, er einungis tekið fram, að þeir eigi aðeins að dæma eftir lögum. Dómarar eru af þessum ástæðum skipaðir til aldursmarka og þurfa aldrei að bera gjörðir sínar undir almenning, hvorki þær sem eru afstaðnar, né þær sem framundan eru. Þeir hafa enga heimild til að setja nýjar lagareglur, þó að þeir hafi í auknum málum tekið sér slíkt vald og til séu svonefndir fræðimenn sem halda því blákalt fram að dómstólar fari með slíkt vald.

 

Ofangreindur dómur MDE er gróft dæmi um brot gegn ofangreindum heimildum dómstóla. Í Morgunblaðinu 2. maí getur að líta tvær greinar þar sem um þetta er fjallað. Annars vegar er þar viðtal við Carl Baudenbacher fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, sem telur að dómur MDE sé rangur. Dómstóllinn hafi fundið upp grundvallarréttindi, sem hvergi sé getið um í Mannréttindasáttmálanum (MSE), en sáttmálinn er sú eina heimild sem dómstóllinn dæmir um. Þetta er í sjálfu sér athyglisvert álit þessa virta dómara, en í starfi EFTA dómstólsins átti hann iðulega þátt í að kveða upp dóma sem fóru út fyrir heimildir þess dómstóls af ofangreindum ástæðum. Dæmið sem þarna var til umræðu var hins vegar sýnilega grófara en fyrri dómar þessara erlendu dómstóla.

 

Einnig er í sama blaði birt viðtal við ungan íslenskan lögfræðing, sem titlar sig sem mannréttindalögfræðing. Þar finnst mér farið út fyrir öll vébönd því talið er að MDE (og líklega dómstólar yfirleitt) hafi heimildir til að fara út um víðan völl í dómum sínum án þess að höfundur geri grein fyrir heimildum dómstólsins til þess. Kannski er afstaða þessa lögfræðings dæmigerð fyrir kenningar um þetta. Mér sýnist þeir, sem slíku halda fram, þá ekki átta sig á því að dómstólar þurfa, eins og aðrar stofnanir sem fara með ríkisvald, að hafa lagaheimildir fyrir ákvörðunum sínum sem ávallt eiga að vera bindandi fyrir landslýðinn. Valdbeiting dómstóla virðist byggjast á þeirri viðleitni að taka sér vald sem þeir ekki hafa. Það er greinilega freistandi að „láta gott af sér leiða“ eins og dómstólarnir telja sig mega gera langt út fyrir valdheimildir sínar.

Íslendingum ber að mínum dómi skylda til að bregðast við þessari óheimilu valdbeitingu og tryggja að þjóð okkar þurfi ekki að sitja undir henni í framtíðinni.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

Comments


bottom of page