top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Um misbeitingu valds


Hinn 17. mars s.l. var birtur á Eyjunni pistill eftir þann mæta sagnfræðing Björn Jón Bragason sem hann nefnir „Misbeiting valds þarf að hafa afleiðingar“. Þar nefnir hann til sögunnar merka bók sem hann skrifaði um framferði Seðlabankans gegn útgerðarfyrirtækinu Samherja hf., þar sem bankinn fór um nokkurra ára skeið með offorsi gegn fyrirtækinu og olli því miklu fjárhagslegu tjóni. Enginn fótur var fyrir þessari aðför bankans gegn fyrirtækinu sem hefur ekki einu sinni verið beðið afsökunar á þessari framgöngu, hvað þá boðið skaða- og miskabætur, eins og Björn nefnir að þekkist í nágrannalöndunum þegar svona stendur á. Í Noregi voru t.d. fyrirsvarsmenn þolandans Transocean sýknaðir af refsikröfum efnahagsstofnunarinnar Ökokrim, sem síðan þurfti að biðja fyrirtækið og forsvarsmenn þess afsökunar á framferði sínu og greiða háar bætur til þolandans og fyrirsvarsmanna hans.

 

Yfirbót af þessu tagi þekkist ekki hér á landi. Hér virðist svona löglaus aðför að fyrirtækjum og fyrirsvarsmönnum þeirra ekki hafa neinar afleiðingar, þó að vera megi unnt fyrir þolendurna að höfða mál á hendur árásarmönnum með kröfum um bætur. Slík málsókn yrði hins vegar erfið hér á landi, þar sem lagalegt siðferði er miklu bágbornara en í nágrannalöndunum. Þeir aðilar sem misfara með valdheimildir sínar ættu líka að þurfa að sæta refsiábyrgð, sbr. t.d. ákvæði í XIV. kafla almennra hegningarlaga.

 

Í grein sinni vísar Björn Jón m.a. til kenninga þekktra erlendra heimspekinga um réttarríkið þar sem rökstutt er að til hugtaksins réttarríkis heyri að þeir, sem hafi umboð ríkisvaldsins til að framfylgja og beita lögunum, skuli bera ábyrgð á eigin starfi í samræmi við lög.

 

Grein Björns Jóns gefur tilefni til þess að nefna til sögunnar viðtalsþætti sem hann gerði haustið 2021 um langvarandi misnotkun opinbers valds hér á landi. Lýsti ég þar í sex viðtalsþáttum margháttaðri misnotkun opinbers valds sem ég hef um áratuga skeið upplifað í starfi mínu sem lögmaður og gagnrýnt með rökstuðningi í bókum mínum. Heiti á þessum þáttum er „Það skiptir máli“ og má finna þá t.d. á hlaðvarpi Morgunblaðsins og Spotify (Það skiptir máli). Þeim sem hafa áhuga er bent á þessa þætti. Þar er unnt að fræðast um misbeitingu ríkisvalds hér á landi gegnum árin, sem yfirvöld hafa sjaldnast borið nokkra ábyrgð á, hvorki með afsökunarbeiðnum né bótagreiðslum og þaðan af síður refsingum. Geta menn þá velt því fyrir sér hvort unnt sé að kalla okkar ríki réttarríki í skilningi þeirra heimspekinga sem um hafa fjallað.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page