top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Um „lifandi réttarframkvæmd“


Að undanförnu hafa gengið dómar við Mannréttindadómstól Evrópu sem hafa orðið tilefni til umræðna hér á landi um þýðingu þessara dóma fyrir íslenskan innanlandsrétt. Virðast þá sumir telja að slíkir dómar dugi til þess að gera íslenskum dómstólum skylt að breyta lagaframkvæmd hér innanlands án þess að meira komi til.


Á þessi sjónarmið er ekki unnt að fallast. Í forsendum dóms Hæstaréttar 22. september 2010 (mál nr. 371/2010) segir orðrétt svo:


„Með lögum nr. 62/1994 var mannréttindasáttmála Evrópu veitt lagagildi hér á landi (…). Í 2. gr. þeirra er tekið fram að úrlausnir mannréttindanefndar Evrópu, mannréttindadómstóls Evrópu og ráðherranefndar Evrópuráðsins séu ekki bindandi að íslenskum landsrétti. Með ákvæði þessu hefur löggjafinn áréttað að þrátt fyrir lögfestingu sáttmálans sé enn byggt á grunnreglunni um tvíeðli landsréttar og þjóðaréttar að því er varðar gildi úrlausna þeirra stofnana sem settar hafa verið á fót samkvæmt sáttmálanum. Þótt dómstólar líti til dóma mannréttindadómstólsins við skýringu sáttmálans þegar reynir á ákvæði hans sem hluta af íslenskum landsrétti, leiðir af þessari skipan að það er verkefni löggjafans að gera nauðsynlegar breytingar á landsrétti til að virða skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu.“

Hér lýsir Hæstiréttur með einföldum hætti lagalegri stöðu úrlausna MDE gagnvart íslenskum rétti. Þær úrlausnir geta aðeins orðið tilefni til athugunar á því hér innanlands, hvort breyta beri íslenskum lögum til samræmis við dóm frá MDE og þá af þeirri stofnun (Alþingi) sem fer með valdið til að setja landinu lög.


Það gerir stöðuna ekki auðveldari þegar dómstóllinn þar ytra ákveður að breyta fyrri dómaframkvæmd og leysa úr málum á annan hátt en hann hefur sjálfur gert áður. Þetta kalla spakir menn „lifandi réttarframkvæmd“. Hún felst í því í reynd að setja nýjar lagareglur og þá jafnvel um málefni sem föst lagaframkvæmd hefur verið á. Enginn dómstóll ætti að teljast hafa heimildir til slíkra hátta.


Þegar þetta gerist taka menn að kalla eftir sambærilegum breytingum á dómsúrlausnum innanlands, þó að lög haldist óbreytt. Það er svo verra að íslenskir dómstólar hafa að einhverju marki látið undan þessu, þrátt fyrir skýra afstöðu Hæstaréttar í dóminum 2010. Slík framkvæmd stenst ekki íslenska stjórnskipun, svo sem mælt er fyrir um hana í stjórnarskránni.


Hitt má vera rétt, að íslensk stjórnvöld séu oft hægfara við athugun á því, hvort leggja beri til við Alþingi breytingar á innanlandsréttinum vegna nýrra dóma þar ytra. Þar mætti vel hvetja þau til skjótari viðbragða. Menn ættu hins vegar að muna að lagabreytingar, sem þannig verða til, geta ekki að íslenskum stjórnlögum dugað til afturvirkra breytinga í málum fortíðar, hvort sem dómar hafa þegar gengið í þeim eða ekki hér innanlands.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page