top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Fróðlegir sjónvarpsþættir

Ég horfði nýlega á fjóra sjónvarpsþætti sem Þóra Arnórsdóttir gerði um hrunið 2008. Þættirnir eru sagðir að mestu byggðir á bók sem sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson skrifaði um atburðina og kom út á árinu 2009.


Sjálfsagt hafa menn mismunandi skoðanir á umfjöllun Þóru og Guðna á ýmsu sem varðar þessa harmrænu atburðarás í sögu þjóðarinnar. En eitt finnst mér sérstaklega áhugavert. Það er lýsingin sem þarna birtist á háttsemi fjölmargra Íslendinga þegar ráðist var að ýmsum ráðamönnum þjóðarinnar með offorsi og upphrópunum og þeim kennt um þessa hörmulegu atburði. Þar bar mest á ósanngjörnum og beinlínis ósæmilegum árásum á ýmsa menn, sem gegnt höfðu stjórnunarstörfum á þeim tíma þegar þessi ósköp dundu yfir. Þeir voru úthrópaðir á fjöldafundum, einkum á Austurvelli og skiltum veifað þar sem þeim var lýst sem óþokkum sem valdið hefðu þeim ósköpum sem dunið höfðu á þjóðinni. Og ekki nóg með það. Veist var að þeim með líkamlegu ofbeldi þannig að kalla varð til lögreglu.


Í þáttunum kemur fram að hatrammastar voru árásirnar á Geir H. Haarde, sem var forsætisráðherra á þessum tíma og Davíð Oddsson seðlabankastjóra. Helst mátti skilja á háttsemi mótmælendanna að þessir menn hefðu valdið hruninu af ásetningi í því skyni að skaða almenning og hlaða undir svonefnda útrásarvíkinga sem rekið höfðu nokkur fyrirtækja sinna erlendis og orðið þar fyrir stórfelldum áföllum. Þessar ásakanir voru fáránlegar. Atburðir voru alþjóðlegir og hreint ekki bundnir við Ísland.


Framganga margra manna á þessum tíma var að mínum dómi ósæmileg. Vera má að eftirá hafi mátt gagnrýna stjórntök trúnaðarmanna almennings í aðdraganda hrunsins, en fráleitt var að ráðast að þeim með þeim hætti sem lýst var í þáttum Þóru. Engin ástæða er til að efast um að þessir menn höfðu borið hag almennings á Íslandi fyrir brjósti í störfum sínum fyrir hrunið, þó að æskilegt hefði verið að þeir hefðu séð fyrir þá atburði sem skullu á. Um þá vissu þeir ekki meira en ráðamenn í öðrum löndum.


Það er sorglegt að sjá myndræna lýsingu á skrílshætti margra Íslendinga á þessum tíma. Þeir sem tóku þátt í að veitast að trúnaðarmönnum almennings á þann hátt, sem lýst er í þáttunum, ættu nú að skammast sín fyrir framkomu sína og heita því með sjálfum sér að haga sér ekki svona aftur, þó að skaðlegir atburðir á borð við hrunið verði í landinu. Þá er málefnaleg gagnrýni sjálfsögð en ekki þau viðbrögð sem lýst er að framan. Reynum að haga okkur eins og siðmenntað fólk fremur en að taka þátt í skrílslegri háttsemi sem beinist að þeim meðbræðrum okkar sem við sjálf höfum valið til trúnaðarstarfa. Sjálfsagt hafa þeir gert mistök við stjórnsýslu sína en það fær auðvitað ekki staðist að þessir menn hafi valdið hörmungum þjóðarinnar á þessum tíma af ásetningi. Og ofbeldisfull hegðun, eins og lýst er í vönduðum þáttum Þóru, á einfaldlega aldrei rétt á sér.


Svo vill til að ég þekki persónulega til þeirra manna, sem urðu helst fyrir fyrrnefndum árásum, og veit að störf þeirra byggðust allan tímann á því sem þeir töldu vera almenningi fyrir bestu, þó að það hafi ekki heppnast sem skyldi. Ég var með þeim í þeim hópi manna sem kenndur hefur verið við Eimreiðina og veit því hvað ég er að tala um. Hörmungar hrunsins hafa áreiðanlega valdið þeim miklum harmi, rétt eins og öðrum Íslendingum.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page