top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Stefnumál eða hvað?

Í október á síðasta ári skrifaði ég stutta grein á vef skrifstofu minnar og á fasbók um „Ranglátan skatt“. Í henni var fjallað um erfðafjárskatt og færð rök fyrir því að með honum væru sömu tekjurnar skattlagðar tvisvar; annars vegar þegar tekna væri aflað og hins vegar aftur þegar þær gengju til erfingja. Var m.a. nefnt að Svíar og Norðmenn hefðu afnumið þennan rangláta skatt og látin í ljós sú von að Sjálfstæðisflokkurinn flytti lagafrumvarp um afnám hans. Sá flokkur færi með fjármálaráðuneytið og stæði það ekki öðrum flokki nær að beita sér fyrir þessu réttlætismáli, sem hlyti að styðjast við stefnu hans um lækkun skatta í landinu. Fleiri en ég hafa birt sjónarmið sín í þessa veru.


Ekkert verður vart við viðbrögð við þessum tilmælum. Ekkert heyrist um málið frá þessum „hugsjónaflokki“. Er það virkilega svo að þessi flokkur meini ekkert með því sem hann segir og haldi bara áfram skattlagningu sem er beinlínis ósiðleg að mínu áliti og fjölmargra annarra stuðningsmanna hans. Það er ekki skrítið að fylgi kjósenda hans skuli nú fara hratt minnkandi. Það hlýtur að gerast þegar stjórnmálaflokkur stendur ekki við stefnumál sín, þótt hann sé kominn í aðstöðu til þess. Aflað er fjár í því skyni að geta eytt meira fé til atkvæðakaupa. Ætli það sé hugsanlegt að áhrifin séu öndverð þessu markmiði?


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page