top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Sjálfsþjónkun þar sem síst skyldi


Landsréttur var stofnaður með lögum um dómstóla nr. 50/2016 og tók rétturinn til starfa 1. janúar 2018. Ákveðið var að Hæstiréttur skyldi starfa áfram og verða eins konar fordæmisdómstóll sem tæki aðeins mál til meðferðar samkvæmt eigin áfrýjunarleyfum.


Við þessar breytingar varð ljóst að verkefni Hæstaréttar drógust saman svo um munaði. Fastir dómarar við réttinn voru níu fyrir breytinguna, en urðu sjö samkvæmt hinum nýju lögum. Ábendingar komu fram um að þeir þyrftu ekki að vera nema fimm eins og þeir reyndar voru lengst af á síðustu öld. Rétturinn mun sjálfur hafa óskað eftir að dómarar yrðu sjö og var það látið eftir honum.


Hér skal fullyrt að þetta er alger óþarfi. Miðað við umfang starfa réttarins nú ættu dómarar ekki að vera fleiri en fimm sem tækju þá allir þátt í meðferð og afgreiðslu allra mála sem rétturinn dæmir.


Það er satt að segja fremur undarlegt að rétturinn skuli sjálfur hafa viljað að dómararnir yrðu fleiri en þörf er á. Í ljós er komið að þeir eru farnir að gegna umfangsmiklum störfum utan réttarins. Til dæmis eru fjórir þeirra sitjandi í föstum kennarastöðum við lagadeild Háskóla Íslands, þrír sem prófessorar og einn dósent. Þetta er nýtt í sögu réttarins. Í fortíðinni hafa kennarar sem hlotið hafa skipun í Hæstarétt jafnan sagt kennslustöðum sínum lausum. Nefna má í dæmaskyni Ármann Snævarr, Þór Vilhjálmsson, Arnljót Björnsson, Markús Sigurbjörnsson, sjálfan mig og Viðar Má Matthíasson. Fyrsta dæmið um þessa sérkennilegu nýbreytni er Benedikt Bogason, sem gegnir prófessorsstöðu við lagadeild HÍ. Það gera núna líka Björg Thorarensen og Ása Ólafsdóttir. Karl Axelsson er dósent. Þannig sitja nú fjórir af sjö dómurum réttarins í föstum kennslustöðum við lagadeild HÍ.


Óboðlegt bandalag


Það er líka ekki boðlegt það bandalag sem myndast með þessum hætti milli lagadeildar HÍ og réttarins. Deildin hefur því hlutverki að gegna að fjalla með gagnrýnum hætti um dómaframkvæmd í landinu. En þarna eru allir vinir. Þeir gefa út heiðursrit hinum til vegsemdar og sitja saman í nefndum, sem fara með veigamikil völd í dómskerfinu, t.d. við að meta hæfni dómaraefna. Augljós dæmi eru fyrir hendi um misnotkun á þessu síðastnefnda valdi.


Svo gegna dómararnir einnig öðrum aukastörfum sem hljóta að teljast umfangsmikil. Einn er forseti endurupptökudóms. Tveir sitja í réttarfarsnefnd sem hefur að gegna umfangsmiklu starfi við samningu lagafrumvarpa o.fl. Hvernig geta dómarar við Hæstarétt tekið þátt í að semja lagafrumvörp með þessum hætti? Fleiri dæmi um slík aukastörf mætti telja en verður ekki gert hér.


Þá læðist að manni grunur um að að dómararnir í Hæstarétti hafi séð sér leik á borði við stofnun Landsréttar að tryggja sjálfum sér möguleika til aukastarfa sem greiddar eru vænar þóknanir fyrir. Þess vegna hafi þeir viljað vera sjö en ekki fimm eins og við blasti að væri nóg. Væri ekki rétt að Háskóli Íslands upplýsti almenning um launagreiðslur sínar til þessara hæstaréttardómara?


Gildir ekki lengur


Í 61. gr. stjórnarskrárinnar er að finna ákvæði um dómsvaldið. Þar er gert ráð fyrir að í landinu starfi dómarar, „sem ekki hafa að auk umboðsstörf á hendi.“

Í gegnum tíðina hefur verið litið svo á að dómarar Hæstaréttar hafi verið þeir einu sem þetta gat átt við um. Nú virðist það ekki gilda lengur.


Að lokum skal þess getið að Hæstiréttur hefur því hlutverki að gegna að tilnefna fulltrúa í fjölmargar stjórnir og nefndir í stjórnsýslu. Það hefur vakið athygli manna að þar eru nær eingöngu tilnefndir lögfræðingar sem tengjast beint lagadeild HÍ en nær engir frá Háskólanum í Reykjavík. Klíkuveldið er alls ráðandi. Alþingi ætti að taka á þessu og nema með öllu úr lögum heimildir Hæstaréttar til þessara tilnefninga. Það er líka vandséð hvernig unnt er að tryggja hlutlausa stöðu dómstólsins til verka slíkra nefnda, sem hann sjálfur hefur átt þátt í að skipa, ef á slíkt reynir fyrir dóminum.


Það er löngu kominn tími til að trúnaðarmenn almennings á Íslandi átti sig á þeirri sjálfsþjónkun sem ríkir í starfi æðsta dómstóls þjóðarinnar og grípi til ráðstafana til að uppræta hana.


Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands

bottom of page