top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Lögfræði í dulargervi


Í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála með síðari breytingum (SL) er kveðið á um Endurupptökudóm og m.a. sagt í 2. mgr. 231. gr. að úrlausnir dómsins séu endanlegar og verði ekki skotið til annars dóms.


30. desember 2021 féllst Endurupptökudómur á beiðni manns um endurupptöku á máli hans en hann hafði verið sakfelldur fyrir refsivert brot í Hæstarétti 13. október 2013. Er kveðið á um það í úrlausn Endurupptökudóms að leyfð sé endurupptaka á þessum dómi Hæstaréttar.


Þegar Hæstaréttardómurinn var kveðinn upp yfir manninum á árinu 2013 hafði Landsréttur ekki verið stofnaður.


Hæstiréttur afgreiddi málið 5. október 2022 með þeim hætti að vísa því frá réttinum þar sem talið var að réttinum væri óheimilt að taka munnlegar skýrslur eftir að lög sem komu Landsrétti á fót höfðu tekið gildi, en þá hafði verið felld úr gildi sérstaklega orðuð heimild til að munnleg sönnunarfærsla mætti fara fram fyrir Hæstarétti. Tekið skal fram að slík sönnunarfærsla var samt ekki bönnuð.


Í forsendum þessa dóms Hæstaréttar kemur fram að Endurupptökudómur hefði ekki túlkað 1. mgr. 232. gr. SL réttilega og segir m.a. svo í forsendunum: „Bar Endurupptökudómi því að réttu lagi, miðað við þær ástæður sem dómurinn lagði til grundvallar endurupptöku málsins, að nýta þá heimild sem hann hefur eftir síðari málslið 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 til að ákveða að vísa því til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Landsrétti.“


Í nefndri 1. mgr. 232. gr. SL er að finna svofellt ákvæði:


„Endurupptökudómur getur leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Landsrétti eða Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 228. gr. Þó getur dómurinn ákveðið að sömu skilyrðum uppfylltum að máli sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði vísað til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Landsrétti.“


Það er augljóst skilyrði fyrir því að dómstóll taki mál fyrir „að nýju“ að málið hafi einhvern tíma áður verið þar til meðferðar. Þegar dómurinn, sem óskað var endurupptöku á, var kveðinn upp á árinu 2013 hafði Landsréttur ekki verið stofnaður. Komið hefur fram í nýrri ákvörðun Endurupptökudóms að því hafi ekki verið unnt að taka málið upp fyrir Landsrétti, þar sem það hafi aldrei verið þar til meðferðar. Væri því ekki um það að ræða að taka mætti málið fyrir þar „að nýju“, eins og kveðið væri á um í heimildinni í SL.


Eftir þessar sviptingar hefur lögfræðinga greint á um réttarstöðuna að því er varðar heimild Endurupptökudóms til að leyfa „endurupptöku“ fyrir Landsrétti á málum sem aldrei hafði verið fjallað um þar fyrir rétti, þar sem hann hafði ekki verið stofnaður þegar dómur var felldur á málið.


Í upphafi þessa greinarkorns er vísað til þess ákvæðis SL sem kveður á um að úrlausnir Endurupptökudóms séu endanlegar og verði ekki skotið til annars dóms. Með dómi sínum 5. október s.l. er ljóst að Hæstiréttur virðir ekki þessa skýru lagareglu. Öllum ætti að vera ljóst að Hæstiréttur er í öllum störfum sínum bundinn af lagafyrirmælum um valdmörk og verksvið dómstóla, þ.m.t. að því er hans eigin heimildir varðar. Öll starfsemi réttarins lýtur þannig fyrirmælum settra laga. Frávísunin 5. október felur með augljósum hætti efnislega í sér endurskoðun á ákvörðun Endurupptökudóms frá 30. desember 2021, þó að reynt sé að dulbúa þetta með því að vísa málinu frá Hæstarétti. Frávísunin fer því beinlínis gegn skýru lagaákvæði um valdmörk þeirra dómstóla sem í hlut eiga.


Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt

bottom of page