top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Að virkja óttann


Á öllum tímum hefur það verið öflugt vopn í heimi mannanna að nýta ótta við utanaðkomandi hættu til að ná pólitískum yfirráðum yfir hinum óttaslegnu.

Sagan segir t.d. að almenningur í Þýskalandi á tímum Hitlers hafi verið svo hræddur að fólkið hafi nánast lagt blessun sína yfir illvirki hans við útrýmingu á milljónum gyðinga á árunum síðari heimstyrjaldar.


Íslenska dæmið sem nú skellur á okkur er auðvitað ekki jafnalvarlegt og þetta þýska dæmi. En það er af sömu tegund. Við Íslendingar erum nefnilega að upplifa það að stjórnvöld leitast við að nýta ótta þjóðarinnar við veiruna miklu til að fá hana til fylgilags við ofbeldisfulla stýringu á háttsemi manna í því skyni að ná tökum á veirunni. Til liðs við þau kemur svo orðhákur úr röðum vísindamanna, sem kann að gera út á hræðslu almennings við hina skaðvænlegu veiru. Þetta framferði mannsins er líka til þess fallið að auka honum persónulegar vinsældir, eins og kemur fram í blaðagreinum og neðanmálsgreinum á netinu. Hann hallmælir dómstólum fyrir að virða meginreglur laga og uppnefnir þá sem fallast ekki á ruglið í honum. Sigríður Andersen alþingismaður hitti naglann á höfuðið þegar hún lýsti þversögninni sem felst í því að moldríkur orðhákurinn sem kominn er á elliár og vill reisa múrvegg á landamærum landsins, líkti öðrum mönnum við Trump úr Vesturheimi fremur en sjálfum sér.


Hvernig halda menn að múgsefjunin virkaði ef ausið væri yfir þjóðina stöðugum áróðri um skaðsemi sóttvarnaraðgerða? T.d. um aukna tíðni sjálfsvíga, þunglyndi, atvinnuleysi, ógreinda sjúkdóma, frestaðar skurðaðgerðir og heimilisofbeldi, en lítið væri talað um skaðsemi veirunnar. Ætli múgsefjunin gæti þá snúist við?


Þó að nauðsynlegt sé að fást við veiruna ættum við að muna að önnur verðmæti eru í gildi í okkar landi sem við ættum ekki að fórna í hennar þágu. Þar á ég við lýðræðislegt skipulag, þar sem leitast er við að vernda frelsi og mannréttindi borgaranna. Látum ekki orðháka af ætt Trumps spilla þeim verðmætum.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page