top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Viðbrögð máttleysis


Það er athyglisvert að sjá hvernig margir menn taka gagnrýni og annars konar mótlæti sem beint er að þeim. Þetta er auðvitað misjafnt eins og gengur. Margir taka einfaldlega til máls og andmæla því sem um ræðir. Það ættu að vera hin eðlilegu viðbrögð. Slík andmæli duga þó skammt nema fyrir þeim séu færð fram gild rök sem sýna fram á að gagnrýnin eigi sér ekki marktækar forsendur.


Aðrir taka mótlætinu illa og leggja þá jafnvel fæð á þann sem valdið hefur þessum búsifjum. Þetta eru þá helst þeir sem vita ekki hvernig svara skuli. Í þessum tilvikum á gagnrýnin oft meiri rétt á sér en ella því sá sem fyrir verður finnur ekki frambærileg rök gegn henni. Miklu betra væri fyrir þessa þolendur gagnrýninnar að viðurkenna að þeir hafa farið villur vegar og jafnvel biðja afsökunar á því framferði sínu ef tilefni er til.


Það er hins vegar frekar fátítt að menn bregðist við með þessum síðarnefnda hætti. Þeim finnst þeir verða meiri menn með því að mótmæla því sem sagt hefur verið um háttsemi þeirra án þess að geta rökstutt mótmæli sín. Aðrir kjósa hins vegar bara að þegja þunnu hljóði og vilja þá ekkert af gagnrýnandanum vita. Þeir einfaldlega hætta að tala við hann og það eins þó að þeir hafi á fyrri tíð verið í vinskap við manninn og jafnvel átt honum skuld að gjalda.


Þetta eru oftast aumkunarverð viðbrögð og máttlaus. Menn eiga að geta talað saman þó að eitthvað beri á milli. Þeir eiga þá að geta rætt það málefni sem veldur og leita sameiginlega að því hvar hundurinn liggur grafinn. Það er auðvitað eitt af einkennum hins lýðræðislega samfélags að brugðist sé við gagnrýni á þennan síðastnefnda hátt og lögvarið tjáningarfrelsi nýtt til að skiptast á sjónarmiðum sínum og þess sem gagnrýnt hefur. Stundum getur átt við að gera þetta á opinberum vettvangi en í öðrum tilvikum með einkasamtali við hinn aðilann.


Kannski er algengast að sá sem hefur fengið á sig athugassemdir við framferði sínu í tilteknu máli bregðist við með reiði og afneitun. Flestir eru uppnæmir fyrir sjálfum sér og skilja ekki að þeir þjóna sjálfsvirðingu sinni best með því að taka réttmætri gagnrýni vel og læra af henni.


Þessi orð eru skrifuð í þeim tilgangi að hvetja menn til að hugsa um þetta og bæta ráð sitt ef þörf krefur.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page