top of page

Stjörnurnar spá

  • Writer: Jón Steinar Gunnlaugsson
    Jón Steinar Gunnlaugsson
  • Apr 15
  • 1 min read

Stjörnuspá mín í Mogganum s.l. þriðjudag 15. apríl hljóðar svo: „Það kemur ekki til greina að þú hverfir af vettvangi án þess að útkljá fyrst mál sem þú ert lengi búinn að bera fyrir brjósti.“


Það er heldur betur uppörvandi að fá svona stjörnuspá. Nú þarf ég bara að fara yfir baráttumál mín og reyna að átta mig á hvaða mál muni hafa þennan farsæla framgang. Til greina koma þessi mál:


1. Endurbætur á skipulagi og starfsemi Hæstaréttar.

2. Viðurkenning dómstólanna í landinu á að þeim beri að hætta með öllu að dæma eftir öðru en settum lögum eða öðrum réttarheimildum.

3. Höfð verði í heiðri stjórnarskrárbundin regla um að sakfella ekki menn nema sökin sem beint er að þeim sé sönnuð lögfullri sönnun.

4. Hætt verði að beita neytendur fíkniefna refsingum og tekið í staðinn að veita þeim læknishjálp.


Best væri auðvitað að öll þessi mál yrðu útkljáð áður en ég hverf af vettvangi. Kannski rætist spádómurinn bara um eitt málanna. Annað væri of mikil tilætlunarsemi. Lesendur ættu að segja mér hvert þeirra þeir telji að það verði því það gæti orðið vísbending til mín um það efni. Ég er svo forvitinn að mig dauðlangar til að fá að vita þetta áður en stundin rennur upp. Og nú styttist fresturinn.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

 
 

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin
bottom of page