top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Sjálfsvirðingin


Ég var að horfa á kvikmynd þar sem fjallað var um morð Þjóðverja á milljónum gyðinga á árum síðari heimstyrjaldarinnar. Hvernig gat þetta ódæði átt sér stað í ríki sem var ekki svo ólíkt okkar eigin að menningu og siðum? Og þetta gerðist aðeins fyrir nokkrum áratugum. Fyrir liggur að flestir „venjulegir“ Þjóðverjar létu sig litlu varða þessa verknaði, sem valdhafar úr hópi nazista stóðu fyrir; gerðu að minnsta kosti lítið sem ekkert til að stöðva þá.


Er það virkilega svo að flestir borgarar í vestrænum ríkjum samsinni, a.m.k. með þögninni svona glæpaverkum sitjandi valdhafa? Láta þeir svona framferði eiga sig svo framarlega sem það snertir ekki persónulega hagi þeirra sjálfra? Hvernig er siðferðisástand okkar „nútímamanna“ hvað þetta varðar? Eru ekki mörg okkar sífellt að samsinna alls kyns fordómum og hreinum ósannindum sem við sjáum birtast einkum á svonefndum samfélagsmiðlum? Þessu ætti hver maður að svara fyrir sjálfan sig. Þó að fordómafullir verknaðir og háttsemi nái yfirleitt ekki þeim „hæðum“, sem raunin varð í Þýzkalandi ætti heiðarlega svar flestra að blasa við, því flest okkar eru svo dáðlaus að stökkva bara upp á vagninn, nema persónulegir hagsmunir okkar mæli því gegn.


Hvað er til ráða? Svar mitt er að okkur beri öllum siðferðileg skylda til að eyða tíma og hugarorku í að mynda okkur sjálfstæðar skoðanir um þau gildi sem við viljum virða í lífi og starfi. Ég held að tilfinning flestra okkar fyrir réttlæti, sannleika og mannréttindum yrði mælikvarðinn sem við flest myndum vilja setja í öndvegi. En það er ekki nóg að gera þetta eingöngu upp í huganum fyrir sjálfan sig. Við verðum að taka sjálf upp lifnaðarhætti sem markast af þessum gildum og vera fús til að berjast fyrir þeim hvenær sem er á vettvangi mannanna.


Og trúið mér: Virðing okkar fyrir okkur sjálfum mun vaxa við þetta og þar með dagleg líðan batna og það eins þó að við höfum þurft að fórna einhverjum fjárhagsmunum fyrir að standa okkur í að vera sjálfstæð og heiðarleg gagnvart öðrum.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

bottom of page