Þeim sem láta sig stjórnskipan ríkisins varða er flestum kunnugt um meginregluna um skiptingu ríkisvaldsins í þrjá efnisþætti, sem hver um sig hefur sínum aðskildu verkefnum að sinna. Löggjafarvaldið er í höndum Alþingis, framkvæmdavaldið í höndum ríkisstjórnar og dómsvaldið í höndum dómstóla. Ein helstu rökin fyrir þessari skipan felast í því að með þessari skiptingu sé valdið temprað. Einn af þessum valdhöfum geti ekki tekið sér fyrir hendur að fara með vald sem öðrum er falið.
Þrátt fyrir þetta hefur því verið haldið fram að handhöfum dómsvaldsins sé heimilt að taka sér löggjafarvald við meðferð dómsvaldsins. Í 61. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um valdheimildir dómstóla. Þar segir í skýrum texta ákvæðisins: „Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum“.
Ýmsir lögfræðingar héldu því fram á fyrri tímum að vald dómstóla skyldi fara langt út fyrir þetta. Meðal þeirra voru jafnvel fræðimenn í lögfræði sem kenndu laganemum aðferðafræði. Þannig skrifaði einn þeirra:
„Viðurkennt er að dómsvaldið eigi að vera sjálfstætt og því mega dómstólar aldrei verða ambátt löggjafans. En þetta hefur enga merkingu nema dómsvaldið hafi sjálfstæðar valdheimildir nokkurn veginn til jafns við löggjafann til að móta reglur sjálfstætt eða að minnsta kosti til aðhalds og mótvægis.“
Strax á yngri árum mínum í lögfræðinni áttaði ég mig á því að þetta viðhorf fengi ekki staðist og færi beinlínis gegn valdmörkum dómstólanna, eins og þeim var og ennþá er lýst í stjórnarskránni. Átti ég af þessu tilefni í ritdeilu við kunnan fræðimann í lögfræði, sem lýst er í bók minni „Í krafti sannfæringar“, sjá einkum bls. 126 og áfram.
Það eru margháttuð rök fyrir því að vald dómstólanna sé bundið við að dæma bara eftir lögunum en ekki móta nýjar lagareglur í úrlausnum sínum. Sumar þessara röksemda eru svo sterkar að þær ættu að duga til þess að taka af allan vafa. Meðal fjölmargra dæma um misnotkun á þessu valdi eru svonefnd umboðssvik sem refsað var fyrir eftir „hrunið“ án þess að lagaskilyrði væru til þess. Þarna var um beitingu refsinga að ræða og var sérstaklega af þeirri ástæðu óheimilt að refsa á tilbúnum og ótækum grunni, eins og gert var.
Svo er öllum ljóst að að dómendur sækja ekki umboð til almennings eins og löggjafinn gerir og bera því ekki lýðræðislega ábyrgð á verkum sínum. Af þessu og ýmsum frekari röksemdum, sem m.a. er gerð grein fyrir í skrifum mínum, er fyrrgreind valdskipting ríkisvaldsins ljós. Tel ég að þetta hafi nú dugað til að sannfæra yfirleitt alla lögfræðinga sem og almenna borgara um réttmæti þessara sjónarmiða. Samt sjáum við ennþá dómendur taka sér vald, sem þeir hafa ekki, til að víkja frá lagareglum og beita viðmiðunum sem beinlínis fara gegn settum lögum og þá yfirleitt til að geta komið fram persónulegum sjónarmiðum við úrlausnir sínar.
Allir Íslendingar, hvort sem þeir eru lögfræðimenntaðir eða ekki, ættu að andæfa þessum sjónarmiðum og láta í sér heyra ef þeir verða varir við að dómstólar fari út fyrir valdheimildir sínar, því að í því felst einfaldlega misbeiting valds þeirra.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður