top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Með grimmustu skepnum jarðar?

Ég horfði nýverið aftur á kvikmyndina Schindler‘s List. Myndin var gerð 1993 af hinum þekkta kvikmyndargerðarmanni Steven Spielberg og byggð á raunverulegum atburðum í síðari heimsstyrjöldinni. 


Þetta er alveg mögnuð kvikmynd. Kannski er þó réttara að nota þetta orð um atburðina sem hún lýsir. Fjallað er um aðgerðir þýska iðnrekandans Oscars Schindlers undir lok styrjaldarinnar þegar honum tókst að bjarga 1100 gyðingum frá þeim örlögum að verða drepnir í gasklefum Þjóðverja. Þessi maður var í stríðsbyrjun félagi í Nasistaflokknum en snerist gegn morðæði nasistanna undir lok styrjaldarinnar þegar hann áttaði sig á framferði þeirra Þá auðnaðist honum að bjarga þessu fólki. Schindler er nú virtur fyrir gjörðir sínar sem einn af merkilegri mannvinum sögunnar.


Vitað er að nasistarnir drápu um 6 milljónir Gyðinga í síðari heimsstyrjöldinni. Þeir litu ekki á fólkið sem menn heldur nánast dýrategund sem þyrfti að útrýma. Notuðu þeir oftast gasklefa sína til að smala fólkinu þar inn og drepa það síðan með banvænu gasi.


Kvikmyndin er talin með bestu og áhrifamestu kvikmyndum sögunnar. Atburðirnir sem hún lýsir eru byggðir á raunverulegum atburðum. Maður verður beinlínis miður sín eftir að hafa horft á þetta. Það er eins og grimmd mannskepnunar eigi sér engin takmörk. Þessir atburðir áttu sér stað fyrir nokkrum áratugum í ríki sem byggt var menntuðu fólki sem var að því leyti ekki svo ólíkt okkur og öðrum núlifandi íbúum Vesturlanda.


Kannski felur þessi kvikmynd í sér lýsingu á því að mannskepnan sé meðal grimmustu skepna jarðarinnar. Við réttar aðstæður virðast miklu fleiri tilbúnir að taka þátt í svona geðveikislegu framferði gegn meðbræðrum sínum en flest okkar gera sér grein fyrir. Þess vegna ættum við að horfa á þessa mynd með reglulegu millibili til að minna okkur á hversu ófullkomin við erum og hvað þarf að varast í heimi mannanna.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður


bottom of page