top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Hagsmunir allra


Ég starfaði sem dómari við Hæstarétt í átta ár, 2004-2012. Áður en ég tók til þessara starfa hafði ég séð til verka réttarins ýmislegt sem ég var ekki sáttur við. Ég hafði lýst þessu í ræðu og riti, þegar ég tók þá ákvörðun að sækja um dómarastarf fyrst og fremst í því skyni að kanna hvort mér yrði eitthvað ágengt við að bæta úr því sem ég taldi aðallega að hefði farið aflaga. Ég var skipaður til starfans, þó að sitjandi dómarar við réttinn hefðu reynt hvað þeir gátu til að hindra skipun mína. Þeim athöfnum lýsti ég í bók minni „Í krafti sannfæringar“, sem kom út á árinu 2014. Sú saga þolir varla birtingu, svo ósæmileg sem hún var, sérstaklega þar sem æðsti dómstóll þjóðarinnar átti í hlut.


Eftir að hafa starfað í réttinum þennan tíma varð mér betur ljóst en áður hvar

skórinn kreppti. Ég lét því ekki bara við það sitja að segja deili á dómaraverkum sem ég taldi ekki standast, heldur setti ég fram tillögur um hverju mætti breyta í lögum um Hæstarétt til að stuðla að vandaðri vinnubrögðum réttarins og gagnsæi við starfsemina. Ég gaf út ritgerðina „Veikburða Hæstiréttur“ á árinu 2013, þar sem gerð var ítarleg grein fyrir hugmyndum mínum um lagabreytingar í þessu skyni og rökstuðningi fyrir þeim. Segja má að meginstefið í tillögum mínum hafi verið gagnsæi, bæði við skipun nýrra dómara og einnig við ritun atkvæðanna í fjölskipuðum dóminum. Ég taldi þá m.a. að afnema þyrfti áhrif sitjandi dómara og vinahóps þeirra á skipun dómara og svo ættu dómarar að skila skriflegum atkvæðum þar sem gerð yrði grein fyrir lögfræðilegum rökstuðningi þeirra hvers og eins í stað þess að kveða upp hópdóma, þar sem öll áhersla lægi á því að vera allir sammála í öllum málum.


Þeir sem tjáðu sig um þessar hugmyndir tóku þeim vel. Menn virtust sjá að tillögurnar lutu aðeins að því að bæta og styrkja starfsemi réttarins. Allt að einu náðu þær ekki fram að ganga að því sinni. Ástæðan var hatrömm andstaða dómaranna við réttinn. Kom þá í ljós hið sama og einatt er ráðandi, þ.e. undirgefni við þá sem telja sig eiga hagsmuna að gæta í þágu sjálfra sín og berjast gegn endurbótunum.


Mér er kunnugt um að núverandi dómsmálaráðherra Jón Gunnarsson hefur tekið tillögur um endurbætur á dómstólum til athugunar og hugar að breytingum á lögum um dómstóla í því skyni. Ég hvet hann til dáða í því efni og bendi á að allir stjórnmálaflokkar hljóta að vilja styðja lagasetningu sem hefur þau markmið að styrkja starfsemi þeirra þýðingarmiklu stofnana sem dómstólarnir eru og þá ekki síst æðsti dómstóllinn, Hæstiréttur.

bottom of page