top of page

Gáfnamerki

  • Writer: Jón Steinar Gunnlaugsson
    Jón Steinar Gunnlaugsson
  • 57 minutes ago
  • 5 min read

Gáfnamerki: gott að þegja,

glotta að því, sem aðrir segja,

hafa spekingssvip á sér,

aldrei viðtals virða neina,

virðast hugsa margt, en leyna

því, sem raunar ekkert er.

          — Guttormur J. Guttormsson


Ég lét af störfum sem dómari við Hæstarétt haustið 2012.

 

Segja má að megintilgangur minn með því að hætta hafi verið löngun mín og kannski þörf á að geta fjallað um dómstólinn á opinberum vettvangi til þess að „berja í brestina“ en að mínum dómi var brýn þörf á að gera það. Ég hafði kynnst starfsemi þessa æðsta og þýðingarmesta dómstóls þjóðarinnar „innan frá“ ef svo má segja og þóttist vita hvað ég söng þegar ég fjallaði um einstaka þætti í starfsemi hans. Fyrsta bók mín um þetta kom út á árinu 2013 „Veikburða Hæstiréttur“ og gerði ég þar grein fyrir þýðingarmestu breytingunum sem ég taldi að gera þyrfti á skipulagi dómstólsins og vinnubrögðum hans. Tillögur mínar voru vel rökstuddar og ítarleg grein var gerð fyrir þörfinni á að hrinda þeim í framkvæmd.


Ég varð fyrir vonbrigðum með þær viðtökur sem bókin fékk á almennum vettvangi. Lítt var rætt um alvarlega gagnrýni mína á Hæstarétt Íslands, þó að ég héldi áfram að hvetja menn til dáða, m.a. með meiri skrifum. Það var eins og þjóðin væri dofin gagnvart dómstólnum. Ég vísaði einhvers staðar til Nóbelskáldsins um tilhneigingu Íslendinga til að stunda „orðheingilshátt“ og tala bara um „titlíngaskít“ þegar ræða þarf alvarleg mál. Mér finnst þetta ástand hafa verið viðvarandi og ennþá sé brýn þörf á endurbótum. M.a. gerði Alþingi að kröfu dómaranna breytingu á lögum um Hæstarétt og fékk réttinum sjálfun svo gott sem alræðisvald um skipun nýrra dómara. Það var mikið óþurftaverk. Við dómstólinn stofnaðist við þetta eins konar klíka sem herti skaðleg áhrif sín á starfseminni. Í þessu nutu dómararnir fulltingis lögfræðinga sem störfuðu utan dómstólsins en sóru sig í valdamikinn hópinn.

 

Á síðustu árum hefur ekki verið fjallað að ráði um verk Hæstaréttar opinberlega og þá síst á gagnrýninn hátt. Engu er líkara en að þeir, sem gerst ættu um að vita, óttist dómstólinn. Málflutningsmennirnir eru hræddir um hagsmuni skjólstæðinga sinna í ódæmdum málum og lögfræðingar, sem hyggja á frama innan dómskerfisins, halda líka að sér höndum. Þeir vita að til þess að ná slíkum frama verða þeir að koma sér vel við valdahópinn sem stjórnar dómskerfinu, meðal annars vali nýrra dómara, en þar eru dómarar við Hæstarétt áhrifamestir.


Nýjasta dæmið, skylt þessu, er þegar núverandi dómsmálaráðherra hafnaði að kröfu sjálfra dómaranna tillögum um að fækka þeim, þó að umfangið á starfseminni hefði minnkað verulega við stofnun Landsréttar og ríkisstjórnin gæfi út yfirlýsingar um nauðsynlegan sparnað í ríkisrekstri. Núna geta verklitlir dómararnir sinnt aukastörfum og drýgt tekjur sínar verulega. Hefur íslenska ríkið meira að segja fengið þeim slík störf í hendur. Þetta þekktist ekki áður.


Kannski lýsir þagnarhjúpurinn sem umlukið hefur Hæstarétt Íslands sér vel í opinberri umfjöllun að undanförnu þegar minnst hefur verið á þörfina fyrir að fækka sitjandi dómurum. Hugsanlega vill dómsmálaráðherra ekki styggja dómsvaldið af ótta við að það verði ekki ráðherranum hliðhollt í framtíðinni, enda hafa Hæstaréttardómararnir orðið berir að grófri misnotkun valds í embættisfærslum sínum eins og ég rek hér að neðan. Svo gæti verið að sumir lögfræðingar vilji hafa sitjandi dómara góða í von um að eiga meiri möguleika á að fá skipun í embætti við dóminn þegar skipa þarf nýja dómara í framtíðinni.


Þegar ég hef skrifað bækur mínar um réttinn, hef ég velt því vandlega fyrir mér hvort ég ætti að skýra frá ótrúlegri atburðarás í tengslum við skipun mína í embætti dómara við Hæstarétt á árinu 2004. Þar hafði framferði nær allra starfandi dómara við réttinn verið með þeim hætti að afar ámælisvert hlaut að teljast. Þeir brutu gegn lögum á þann veg að tvímælalaust varðaði við almenn hegningarlög, þar sem kveðið er á um refsinæmi þess að misfara með opinbert vald (sjá xiv. kafla laganna t.d. 130. gr.). Þetta gerðu þeir í því skyni að hindra skipun mína í réttinn. Í huga mér tókust annars vegar á hagsmunir af því að þjóðin gæti borið traust til æðsta dómstóls síns og svo hins vegar hagsmunir af því að reyna að hindra misnotkun ríkisvalds á æðstu stöðum í framtíðinni. Mér var og er auðvitað vel ljóst hversu þýðingarmikið það er að þjóðin geti borið traust til dómstólsins. Hefðin hefur verið sú að þegja til að reyna að vernda þetta traust.


Ég komst að þeirri niðurstöðu að traust mætti ekki byggjast á vanþekkingu á vondum verkum. Það yrði að byggjast á þekkingu á góðum verkum. Þögn um misgjörðir og misnotkun valds er einungis til þess fallin að festa slíka háttsemi í sessi. Sá sem kemst upp með að misnota vald sitt vegna þess að enginn talar um það er líklegur til að endurtaka slíkt hátterni. Niðurstaða mín varð því sú að segja frá atburðarásinni. Er frásögn mína að finna í 13. og þó einkum 14. kafla bókar minnar „Í krafti sannfæringar“, sem kom út á árinu 2014. Ég átti í barnaskap mínum von á að frásögnin myndi valda miklu fjaðrafoki, bæði í fjölmiðlum og einnig meðal æðstu valdsmanna þjóðarinnar í ríkisstjórn og á löggjafarsamkundunni. Atvikin sem ég lýsti voru að vísu nokkuð komin til ára sinna, þar sem þau áttu sér stað um 10 árum áður en bók mín kom út. Allt að einu hlutu allir ábyrgir menn að sjá að átta af níu dómurum við Hæstarétt höfðu brotið gróflega gegn lagaskyldum sínum; meira að segja þannig að refsingu hefði átt að varða.


Því miður tel ég mig hafa orðið vitni að slæmum dómaraverkum, bæði meðan ég enn starfaði sjálfur við dómstólinn og ekki síður eftir að ég lét af störfum. Ég hef engan áhuga á að ná mér niðri á þeim sem gerðu á hluta minn á sínum tíma enda eru þeir einstaklingar sem þá áttu hlut að máli horfnir frá störfum. Þeir sem við tóku hafa hins vegar flestir sýnt að þeir eru ekkert betri. Og þörfin fyrir endurbætur er brýn. Við viljum ekki að börnin okkar þurfi að sitja undir geðþótta og kunningjagæsku þegar helgasta stofnun réttarríkisins, æðsti dómstóllinn, á í hlut.


Ég býst við að hvarvetna í nágrannalöndum okkar hefðu það þótt mikil og alvarleg tíðindi ef fráfarandi dómari við æðsta dómstól viðkomandi þjóðar hefði skýrt frá framferði samdómara sinna eins og því sem hér er hefur verið lýst. Menn hefðu að minnsta kosti leitað eftir svörum og skýringum. Gat það til dæmis verið að sögumaður færi rangt með staðreyndir í lýsingu sinni? Hefði ekki verið nauðsynlegt að þeir sem fyrir sökum voru hafðir svöruðu fyrir sig? Það var ekki gert einfaldlega af þeirri ástæðu að þeir kunnu ekki svörin og óttuðust að efni gagnrýni minnar kæmi til tals í þjóðfélaginu. Í þessu náðu þeir góðum árangri. Þetta var óþægilegt umræðuefni svo flestir þögðu bara þunnu hljóði.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

 
 

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin
bottom of page