top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Fréttirnar segir fréttastofa RÚV


Ljósmynd: Haraldur Guðjónsson

Fréttastofa RÚV er kostuleg stofnun. Mér er nær að halda að þeir hafi lög að mæla sem segja hana ekki fréttamiðil heldur miklu fremur beinan þátttakanda í málaskaki samfélagsins og þá með afstöðu sem sett er fram án kinnroða.


Ég varð þess vafasama heiðurs aðnjótandi s.l. fimmtudagskvöld að verða skotspónn þessarar fréttamennsku. Í aðalfréttatímanum klukkan 19 var fyrsta fréttin af því, að Benedikt Bogason hæstaréttardómari og formaður dómstólasýslunnar hefði sótt um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar á sýknudómi Landsréttar í meiðyrðamáli hans gegn mér. Aðalfrásagnarefnið var að ég hefði reynt að hafa áhrif á val dómara í Landsrétti til að dæma málið, með símtölum við dómstjórann og einn dómaranna í málinu. Byggðist fréttin á fullyrðingum Vilhjálms Vilhjálmssonar lögmanns Benedikts, sem var búinn að finna það út með textaskýringum á tölvupósti frá mér að ég hefði átt samtalið við dómstjórann áður en hann tók ákvörðun um hverjir skyldu dæma.


Meginefni fréttarinnar rangt


Þetta meginefni fréttarinnar er rangt, enda studdist það ekki við neitt nema getsakir Vilhjálms lögmanns. Ég hafði vissulega hringt í dómstjórann, eins og ég hafði skýrt frá í tölvupósti sem m.a. var sendur lögmanninum. Þar hafði ég komist svo að orði að ég hefði haft áhyggjur af því að dómarar sem skipuðu dóminn „yrðu ekki hlutlausir“. Þetta orðalag hafði lögmaðurinn talið sýna að ég hefði rætt við dómstjórann áður en skipað var í dóminn. Þetta var hreinn misskilningur hans eins og öllum sem lásu hefði átt að verða ljóst. Ég átti bara við hið augljósa, að þeir yrðu ekki hlutlausir við meðferð málsins. Samtalið átti ég við dómstjórann eftir að hann hafði lokið við að skipa í dóminn og tilkynnt málsaðilum það. Eftir það gat hann ekki breytt þeirri ákvörðun, þó að óskað hefði verið eftir því, en það gerði ég auðvitað ekki.


Atburðarásin


Ástæða er til að fara nokkrum orðum um þessa atburðarás.


Hinn 11. febrúar 2019 barst tilkynning frá Landsrétti um að málflutningur í máli Benedikts gegn mér skyldi fara fram hinn 1. apríl 2019. Kom fram í tilkynningunni hverjir yrðu dómarar í málinu. Ég hafði strax áhyggjur af skipan eins þeirra, þar sem mér hafði verið tjáð að þessi dómari væri í vinfengi við dómara í Hæstarétti og hugsanlega leyfisbeiðanda sjálfan. Ég hafði því símsamband við dómstjórann, aðallega til að fá að vita hvort aðrir dómarar við réttinn hefðu lýst vanhæfi og þá vegna valdastöðu Benedikts gagnvart Landsrétti, en dómstólasýslan sem hann stýrir, gerir tillögur til Alþingis um fjárveitingar til réttarins. Dómstjórinn sagði ekki annað um þetta en það sem lá fyrir, að búið væri að skipa í dóminn. Dómararnir myndu sjálfir fjalla um kröfur um að víkja sæti vegna vanhæfis ef fram kæmu. Það var mér auðvitað ljóst sem og hitt að ég var að tala við yfirmann sem hafði lokið ákvörðunum sínum í málinu og hefði ekki einu sinni heimild til að breyta þeim. Ég bar auðvitað ekki fram neinar óskir um slíkt.


Svo er að sjá af beiðni Benedikts til þeirrar stofnunar sem hann vinnur við, um leyfi til að áfrýja sýknudóminum til Hæstaréttar, að þetta sé ein aðalástæðan fyrir beiðninni.


Síðan hafði ég einnig í nefndum tölvupósti skýrt frá því að gefnu tilefni að ég hefði lyft símanum og hringt til þess dómara sem ég taldi að kynni að vera vanhæfur til að inna hann eftir því hvort hann væri í þannig tengslum við Benedikt eða aðra sem tengdust honum að vanhæfi gæti valdið. Beindi ég því til dómarans að huga að þessu en tilkynnti honum líka að ég myndi ekki krefjast þess að hann viki sæti. Var þetta símtal afar kurteislegt af beggja hálfu.


Svör mín klippt út úr viðtalinu


Meginefni fréttar RÚV í fréttunum klukkan 19 var að segja frá villukenningu Vilhjálms lögmanns um þetta, m.a. með viðtali við hann. Í lokin var sagt að talað yrði við mig í fréttum klukkan 22. Kannski betur hefði heppnast við fréttaflutninginn að leita afstöðu minnar áður en fyrri fréttin var flutt. Þannig hljóta allar sómakærar fréttastofur að vinna.


Það var svo tekið viðtal við mig sem sjónvarpað var í seinni fréttatímanum. Þar var búið að klippa viðtalið til og fjarlægja svör mín um að samtalið við dómstjórann hefði ekki átt sér stað fyrr en hann hafði lokið störfum við að skipa í dóminn, þannig að þar yrði engu breytt. Þetta voru svör við aðalefni uppsláttarins í fyrri fréttatímanum. Þessi vinnubrögð fréttastofunnar eru auðvitað ekki boðleg.


Og svona að lokum. Það er auðvitað ekkert athugavert við að málsaðili eða lögmaður eigi orðastað við dómara um mál eftir að hann hefur lokið starfi sínu í tengslum við það, hvort sem það felst í að kveða upp dóm í málinu eða skipa dómara til að dæma í því. Gegn mér er sýnilega reynt að gera úr mér tröllkall sem bægslast um eins og fíll í postulínsbúð. Það eina sem ég hef gert til að vinna mér inn óvild hjá dómaraelítunni er að segja rökstudd deili á verkum hennar. Það finnst þeim nauðsynlegt að þagga niður með rógi ef ekki vill betur.


Það vekur undrun mína að fréttastofa allra landsmanna skuli láta misnota sig með því að fá sig til þátttöku í þessu spili.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page