top of page

Frændur eru frændum bestir

  • Writer: Jón Steinar Gunnlaugsson
    Jón Steinar Gunnlaugsson
  • 1 day ago
  • 2 min read

Frændi minn Ögmundur Jónasson skrifar nýja grein í Morgunblaðið 30. apríl um dómskerfið. Er hún að nokkru leyti svar til mín vegna skrifa í blaðinu 16. apríl, þar sem vikið hafði verið að fyrri skrifum hans um sama efni.


Nú skýrir Ögmundur betur en áður afstöðu sína til málsins og sé ég ekki betur en að hann sé í meginatriðum sammála mér um að dómstólar eigi bara að dæma eftir settum lögum en ekki að „setja ný“, eins og sumir lögspekingar hafa talið þeim rétt að gera.


Ögmundur víkur sérstaklega að sakamálum, þar sem felldir hafa verið dómar yfir sakborningum sem sakaðir hafa verið um kynferðisbrot. Fæ ég ekki betur séð en hann telji, eins og ég, að sanna þurfi slík brot lögfullri sönnun til að heimilt sé að sakfella sakborninga fyrir þau. Hafi læknisskoðun á brotaþola oftast meginþýðingu við þá sönnun. Þessu er ég að mestu leyti sammála en verð samt að benda á eitt atriði sem frændi minn hefði mátt nefna.


Þegar kynferðisbrot eru borin undir dómstóla má segja að sanna þurfi tvo meginþætti. Annars vegar hvort brotaþoli beri þess óyggjandi merki að hafa sætt slíku broti. Hins vegar þarf að sanna, sé um það deilt, að sakborningur í máli hafi framið brotið en ekki einhver annar maður. Um þann þátt málsins geta læknar sjaldnast borið og verður þá að leita annarra sönnunargagna um þetta.


Mér sýnist af skrifum Ögmundar að hann hljóti að vera mér sammála um að sönnun á þessum síðarnefnda þætti þurfi að vera til staðar til að unnt sé að sakfella sakborninginn. Kannski hefur hann, eins og ég, horft á kvikmyndina „Atonement“, sem gerð var árið 2007, þar sem er að finna örlagaríka frásögn af manni sem ranglega var dæmdur fyrir kynferðisbrot og þeim hörmum sem hann mátti þola af þessu tilefni.


Að þessu sögðu sýnist mér að við frændur séum að mestu leyti sammála. Dómarar dæma og löggjafinn setur lögin sem þeir dæma eftir. Ég læt svo eftir mér að benda honum á að skrifa styttri greinar um hugðarefni sín en hann gerir. Þá lesa menn skrifin frekar en ella.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

 
 

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin
bottom of page