top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Afi minn


Um miðjan þennan mánuð (apríl) birtist í Morgunblaðinu frásögn af því er rúmlega fimmtugur maður, Hilmar Þór, fann föður sinn eftir að hafa leitað hans um margra ára bil. Við erfðafræðilega rannsókn kom í ljós, að maður að nafni Guðjón Sigurðsson, reyndist vera faðirinn og hafði hann ekkert vitað um tilvist sonarins. Guðjón er góðvinur minn og hefur verið um áratuga skeið. Svo sem fram kom í Morgunblaðinu er nú orðið kært á milli þeirra feðga og reyndar annarra í fjölskyldu Guðjóns, en þar tóku allir Hilmari vel.


Líklega er algengara en menn gera sér grein fyrir, að hér á landi eru ýmsir sem er rangt í ætt skotið, bæði karlar og konur. Tilviljanir ollu því að ég sá ástæðu til að láta fyrir nokkrum árum kanna erfðafræðileg tengsl mín við föðurafa minn Ólaf Þórarinsson.


Ég leitað því til Kára Stefánssonar hjá Íslenskri erfðagreiningu til könnunar á þessu. Þegar ég hitti Kára af þessu tilefni vildi hann ekkert vita um þá sem talið var að gætu komið til greina. Kári sagði að þetta myndi hann finna út með rannsókn sinni og myndi hann þá geta sagt mér hver maðurinn væri ef í ljós kæmi að það væri ekki Ólafur Þórarinsson, sem talinn hafði verið afi minn.


Svo þegar Kári hringdi til mín með niðurstöðuna kvað hann staðfest að Ólafur væri ekki afi minn. Ekki vildi samt betur til en svo að tveir menn komu til greina en ekki einn, eins og Kári hafði talið. Ástæðan var sú að genin voru úr öðrum eineggja tvíbura, Guðbirni eða Lárusi Hansyni. Við nánari athugun kom í ljós að Guðbjörn hafði, á þeim tíma sem um ræddi, verið búsettur í sama húsi á Njálsgötunni í Reykjavík og amma mín, Þorgerður Vilhelmína Gunnarsdóttir, og maður hennar Ólafur. Lárus var nýkvæntur á sama tíma. Taldi ég því að Guðbjörn væri maðurinn sem í hlut ætti. Pabbi var yngstur barna Þorgerðar og Ólafs en amma dó á árinu 1921, þegar pabbi var á öðru aldursári. Faðir minn var öndvegismaður og þótti mér slæmt að fá vitneskju um að hann hefði búið við fremur þröngan kost í æsku svo sem frásagnir greindu.


Við athugun á æviferli Guðbjörns kom í ljós að þar hafði farið hinn vandaðasti maður, sem lengst af gegndi stöðu yfirvarðstjóra hjá lögreglunni í Reykjavík. Í frásögnum af honum kom í ljós að hann hafði haft mörg sömu áhugamál og pabbi. Þar var um að ræða iðkun íþrótta, svo sem fimleika og sunds, áhugi á taflmennsku og bridsi, ljóð og kvæðalestur svo eitthvað sé nefnt. Með þessu tilskrifi birti ég ljósmynd af þeim tvíburabræðrum og er afi til vinstri á myndinni.


Það er í rauninni magnað að rúmum 100 árum eftir fæðingu föður míns skuli hafa verið unnt með vísindalegum rannsóknum að finna föður hans. Jón Steinar Gunnlaugsson

bottom of page