top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Þeir fórna trúverðugleika sínum

Updated: May 11, 2022


Ég hitti alþingismann á förnum vegi á dögunum og tókum við tal saman. Hann er þingmaður flokks sem um þessar mundir er í stjórnarandstöðu. Talið barst að störfum þingsins. Hann sagði mér að forysta flokks síns ætlaðist til þess að hann tæki þátt í andófi við ríkisstjórninni, hvert sem málefnið væri og hvaða skoðun hann kynni að hafa á því. Hann sagði mér að flokksfélagar hans leituðust við að vinna svona. Þeir settu á langar ræður, sem ekki þjónuðu neinum öðrum tilgangi en þeim að andæfa ríkisstjórninni. Þetta gerðist m.a. í málum sem þeir væru hlynntir en teldu skyldu sína að mótmæla og tefja fyrir vegna þess að þeir væru í stjórnarandstöðu.


Þetta eru slæm tíðindi. Sést hefur að vísu málþóf í þinginu sem engum tilgangi virðist þjóna. Þetta er hins vegar í fyrsta sinn sem ég heyri vitnisburð um að forysta stjórnarandstöðuflokka ætlist til þess að þingmenn þeirra viðhafi framferði af þessu tagi. Viðmælandi minn kvaðst að vísu ekki taka þátt í þessu sjálfur en félagar hans í þingflokknum gerðu það í stórum stíl. Stundum stæðu þingfundir miklu lengur en þörf væri á vegna þess að málþófsmenn misnotuðu málfrelsi sitt á þennan hátt.


Þeir þingmenn sem taka þátt í svona framferði ættu að skilja að þeir skaða trúverðugleika sinn með því. Það er eins og þeir haldi að almenningur sem fylgist með sé sauðheimskur og sjái ekki í gegnum ruglið. Það er mikill misskilningur. Það er ekki ólíklegt að fólkið í landinu missi trúna á heiðarleika þingmanna sem haga sér svona og taki síður mark á þeim þegar þeir segja eitthvað sem þeim sjálfum finnst skipta raunverulegu máli.


Ég ráðlegg þeim því að láta af þessum vinnubrögðum. Það er ekkert athugavert við að fallast á réttmæti þingmáls sem maður er hlynntur, þó að þingmaður eða ráðherra úr öðrum flokki flytji það. Með því hækka þeir bara í áliti en lækka ekki, eins og þeir virðast telja.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page