top of page
  • Jón Steinar Gunnlaugsson

Ótrúlegt réttarfar við yfirdeild MDE

Yfirdeild (Grand Chamber) Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE), skipuð 17 dómurum, fjallar nú um mál Íslands sem dæmt var af sjö manna dómi við dómstólinn (Chamber) fyrir um það bil einu ári síðan.

Þó að hér sé svo sem ekki um hefðbundna áfrýjun að ræða, eins og við þekkjum hana fyrir íslenskum dómstólum, er verkefni yfirdeildarinnar að endurskoða dóminn frá í fyrra í því skyni að staðfesta niðurstöðu hans eða breyta henni. Málsmeðferðin fólst í skriflegum og munnlegum málflutningi af beggja hálfu, kærandans og íslenska ríkisins, eins og lýst hefur verið í fjölmiðlum hér á landi. Það er meginatriði við málflutning fyrir dómi að mál sé flutt fyrir hlutlausum dómurum.

Meðferð yfirdeildarinnar þarf að vera hlutlaus gagnvart málsaðilum til þess að mark sé á henni takandi. Gegn þessu er brotið með grófum hætti við þessa málsmeðferð vegna þess að einn dómaranna af neðra dómstiginu, sem þar sat í meirihluta, situr í yfirdeildinni sem á að endurskoða niðurstöðu hans og fjögurra annarra dómara. Þetta er íslenski dómarinn Róbert Spanó.

Þessi dómari er að vísu ekki málsaðili. Hann hefur hins vegar nánast stöðu málsaðila gagnvart niðurstöðunni frá í fyrra. Hann var einn dómaranna sem stóðu að dóminum, og má því gera ráð fyrir að hann vilji nú leggja metnað í að sá dómur verði staðfestur. Hann hefur lagt mikið undir gagnvart föðurlandi sínu og er sjálfsagt ákafari talsmaður þess að staðfesta beri dóminn, heldur en kærandinn sjálfur myndi vera ef hann sæti í dómarahópnum. Það er ekkert nema furðulegt að dómstóllinn skuli viðhafa þetta fyrirkomulag á meðferð mála fyrir yfirdeildinni. Þessi staða jafngildir því að annar málsaðila hafi talsmann með atkvæðisrétt í dómarahópnum en hinn ekki.

Svona réttarfar fær ekki staðist. Í 6. gr. Mannréttindasáttmálans er kveðið á um að dómur skuli vera sjálfstæður og óvilhallur. Mannréttindadómstóllinn tekur fast á ef talið er að dómstóll, sem dæmir mál í einu aðildarríkjanna, uppfylli ekki þessa kröfu. Þá er engin miskunn sýnd. Svo fremur dómstóllinn sjálfur freklegt brot á reglunni um óvilhalla málsmeðferð. Þetta er nánast eins og grín.

Ég hef áður bent á, að dómur yfirdeildarinnar mun engin réttaráhrif hafa hér á landi vegna þess að á það er skýrt kveðið í íslenskum lögum. Hér bætist það við að dómurinn verður ómarktækur „þegar af þeirri ástæðu“ að hann uppfyllir ekki meginkröfu um að allir dómarar í máli skuli vera hlutlausir gagnvart því verkefni sem þeim er fengið til úrlausnar.

Málsmeðferðin þar ytra er því ranglát gagnvart Íslandi og kemur ekki til greina að fullvalda ríki láti bjóða sér slíkt.

bottom of page