• Jón Steinar Gunnlaugsson

Yfirráðasvæði dómarans


Nú hafa bæði héraðsdómur og Landsréttur sýknað mig af meiðyrðakröfum hæstaréttardómarans Benedikts Bogasonar. Þá birtist það sem alltaf hefur áreiðanlega staðið til. Hann ætlar að ná málinu inn á yfirráðasvæði sitt við Hæstarétt. Lögmaður hans hefur sagt opinberlega að nú verði sótt um áfrýjunarleyfi þangað.


Það vakti furðu margra að Benedikt skyldi höfða þetta mál, því fyrir liggja án nokkurs vafa dómafordæmi sem sýna að ég var langt frá því að misfara með tjáningarfrelsi mitt þegar ég talaði um dómsmorðið í bók minni. Það er ótrúlegt að löglærður maðurinn hafi ekki áttað sig á þessu. En hann hefur kannski bara séð lengra. Ef allt um þryti gæti hann komið málinu til Hæstaréttar, þar sem hann hefur öll spil á hendi.


Spá mín um framhaldið er nokkurn veginn svona: Hann mun nú óska eftir áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Til verða kvaddir þrír lögfræðingar úr vinahópi réttarins til að afgreiða óskina. Þeir munu auðvitað gera það sem þeim er ætlað og veita leyfið. Síðan verða kvaddir til fimm þekkilegir lögfræðingar til að dæma málið. Þeir munu ekki verða bundnir af lögfræði við sýslan sína heldur bara gera það sem til er ætlast af þeim.


Fróðlegt verður að fylgjast með framvindunni í þessu.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin