• Jón Steinar Gunnlaugsson

Við hendina


Við Íslendingar teljum okkur búa í réttarríki. Útverðir þess í okkar skipulagi eru stofnanir sem við höfum komið upp og eiga að tryggja að þetta orð hafi efnislegt innihald þegar á það reynir. Þetta eru dómstólar. Í refsimálum er það meginhlutverk þeirra að tryggja réttaröryggi þeirra borgara sem sökum eru bornir. Þetta er göfugt hlutverk, þó að stundum kunni það að verða vanþakklátt. Ástæða þess er þá oft sú að margir aðrir borgarar verða svo uppteknir af huglægum persónulegum skoðunum sínum á sakborningnum og brotinu, sem hann var sakaður um, að þeir skeyta ekki um hvernig sakfelling horfi við reglum réttarríkisins.

Því miður hefur það gerst að starfandi dómarar virðast líka hafa misst sjónar á framangreindu meginhlutverki sínu og þá látið undan meintum vilja úr umhverfinu, sem skeytir ekki um meginreglurnar. Þess vegna vil ég nú reyna að telja upp þýðingarmestu reglurnar sem dómarar þurfa að beita í störfum sínum í sakamálum. Vil ég gerast svo djarfur að beina því til allra þeirra sem fara með dómsvald í landinu og samsinna mér að prenta þessar reglur út og hafa þær við hendina í störfum sínum. Þeir ættu svo að strengja þess heit að sakfella ekki þá sem fyrir sökum eru hafðir nema að hafa áður getað hakað við öll atriðin á listanum.

  1. Lagaheimild til refsingar þarf að vera í settum lögum. Efni hennar þarf að vera skýrt og ber að túlka vafa sakborningi í hag.

  2. Ekki má dæma sakborning fyrir aðra háttsemi en þá sem í ákæru greinir.

  3. Heimfæra þarf háttsemi til lagaákvæðis af nákvæmni. Dómendur hafa ekki heimild til að breyta efnisþáttum í lagaákvæðum sakborningum í óhag.

  4. Sanna þarf sök. Sönnunarbyrði hvílir á handhafa ákæruvalds.

  5. Við meðferð máls á áfryjunarstigi þarf að gæta þess að dæma sama mál og dæmt var á neðra dómstigi. Til endurskoðunar eru úrlausnir áfrýjaðs dóms; ekki annað.

  6. Sakborningar eiga rétt á að fá óheftan aðgang að gögnum sem aflað hefur verið við rannsókn og meðferð máls.

  7. Sakborningar eiga að fá sanngjarnt tækifæri til að færa fram varnir sínar.

  8. Dómarar, sem dæma, verða að hafa hlutlausa stöðu gagnvart sakborningum.

Ef dómendur gæta þess að hafa þessar reglur ávallt í heiðri geta þeir verið stoltir af starfi sínu og því verkefni sem þeir þannig sinna af kostgæfni.


Jón Steinar Gunnlaugsson er fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands