top of page
Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Verkefni Alþingis

Fyrir nokkru birti ég hér á síðu minni greinarkorn um ástæðuna fyrir því að almenningur á Íslandi nýtur betri lífskjara en fólk sem býr í mörgum öðrum ríkjum. Þar væru stærstu áhrifavaldarnir sæmilegt frelsi í viðskiptum (kapítalismi) og réttarvernd sú sem tiltölulega sjálfstæðir dómstólar veita.


En þar með er ekki öll sagan sögð, þar sem fyrir liggur að íslenska ríkið hefur sólundað skattfé borgaranna í alls kyns starfsemi sem ekkert hefur með þau verkefni að gera sem eðlilegt er að ríkið leggi stund á. Í viðtali í morgunþætti Bylgjunnar 1. júlí s.l. fjallaði Skafti Harðarson formaður Samtaka skattgreiðenda um grein sem hann skrifaði í Viðskiptablaðið 19. júní s.l. Þar fjallar hann um þetta. Það hafa líka fjölmargir aðrir Íslendingar skrifað um að undanförnu, m.a., á svipuðum nótum og Skafti, og gert grein fyrir ógnvekjandi meðferð ríkisins á skattfénu. Fyrir liggur að skattheimtan hér á landi sé miklu meiri en þörf krefst. M.a. nefnir Skafti til sögunnar alls kyns starfsemi opinberra aðila sem þeir ættu alls ekki að standa fyrir en hundruð eða þúsundir manna eru ráðnir til að sinna.


Í viðbót við þetta er nú svo komið málum að fullveldi þjóðarinnar hefur verið skert stórlega með því að færa valdið til þess að setja lög og reglur á Íslandi til erlendra stofnana. Þær setja þá saman stóra reglupakka sem okkur er talið skylt að taka upp hér á landi án þess að þeir hafi hlotið þá meðferð sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir að löggjafinn sinni. Ekki hafa hér á landi einu sinni verið sett almenn lög sem heimila þetta framsal á fullveldi þjóðarinnar og skal þá ósagt látið hvort slík heimild myndi standast ákvæði stjórnarskrárinnar. Um þetta hefur lögfræðingurinn Arnar Þór Jónsson m.a. fjallað í viðamiklum skrifum sínum að undanförnu.


Það er löngu kominn tími til að þeir stjórnmálamenn, sem við kjósum, taki nú til við að sinna endurbótum á þeim skaðvænlegu þáttum sem felast í þeim háttum sem að framan er lýst. Með því yrði gert verulegt átak í að bæta kjör almennings í landinu.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page