• Jón Steinar Gunnlaugsson

Víman


Hvínandi þytur hefur leikið um samfélag okkar að undanförnu vegna ásakana um að mikið sé um að brotið hafi verið á fólki, einkum konum, með því að misbjóða því kynferðislega. Brotamenn sem neiti ásökunum sleppi við refsingar, því erfitt reynist að sanna á þá brotin. Nokkuð hefur verið um að slíkir menn séu samt nafngreindir á opinberum vettvangi, án þess að sakir séu sannaðar, og veldur þetta þeim stundum velferðarmissi, brottrekstri úr vinnu eða útskúfun frá þátttöku í íþróttum svo dæmi séu nefnd. Á þessu eru ýmsar hliðar sem ræddar hafa verið í ýmsar áttir og greinir fólk á um flestar þeirra.


Ein er samt sú hlið á þessu öllu saman sem lítið sem ekkert hefur verið rædd og sumir telja jafnvel að ekki megi minnast á. Þar á ég við áfengis- og vímuefnanotkun langflestra sem þurfa að upplifa þá dapurlegu lífsreynslu sem hér um ræðir, bæði brotamenn og brotaþola. Sumir hafa gengið svo langt að telja óheimilt að vara þá við sem verða þolendur svona brota með því að benda þeim á að varast notkun vímuefna í því skyni að forðast brot.


Ég tel að áfengis- og vímuefnanotkun sé ráðandi áhrifaþáttur í langflestum þessara brota. Afleiðingar hennar geta auk nauðgana og annarra ofbeldisbrota, verið ótímabærar þunganir, vanræksla og jafnvel misnotkun barna, fóstureyðingar, forsjársviptingar, skaðleg andleg áhrif á börn, framhjáhöld, slys og ótímabær andlát.


Þó að enginn vafi sé á, að þessi neysla sé stærsti áhrifaþátturinn í bölinu, heyrast þær skoðanir að á þetta megi helst ekki minnast. Til dæmis megi ekki vara, oftast konur, við vímuefnanotkun á skemmtistöðum. Með því sé verið að réttlæta brot misindismanna, sem á þeim brjóta. Þetta er auðvitað hálfgerður þvættingur, sem á líklega rót sína að rekja til þess að svo margir vilja geta þjónað áfengisnautn sinni í friði. Í raun er verið að segja að ekki megi benda fólki á að reyna að gæta sín sjálft. Það er samt vafalaust besta vörnin gegn svona brotum að gæta sín sjálfur. Þetta jafnast t.d. á við að gæta sín í umferðinni til að forðast slys.


Ráðið er sem sagt að hætta eða draga verulega úr notkun áfengis- og vímuefna hvort sem er á skemmtistöðum eða bara heima fyrir. Slíkt er til þess fallið að draga úr hættu á þessum brotum, þó að þau yrðu seint alveg úr sögunni. Þeir sem ekki geta nýtt sér þetta ráð eru líklega háðir vímugjöfunum með þeim hætti að þeir ættu að leita sér hjálpar.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður