top of page
  • Writer's pictureKonráð Jónsson

Um sættir í einkamálum


Í einkamálalögum er gert ráð fyrir að dómari leiti sátta ef aðilar fara með forræði á sakarefni. Einhverjum kann að þykja það sérkennileg hugmynd, enda bendir sú staðreynd að mál er komið til dóms til þess að ekki sé mikill sáttahugur með aðilum. Þegar málið er komið á þennan stað er yfirleitt búinn að hlaðast upp hár málskostnaður sem dregur úr líkum á að unnt sé að sætta málið.


Samt sem áður er það skoðun undirritaðs að það sé aldrei of seint að reyna að sætta mál. Lögin ganga meira að segja svo langt að heimila að mál verði sætt allt að níu mánuðum eftir að dómur gengur í því, en undirritaður veit reyndar ekki um mál sem hafa verið sætt með þeim hætti.


Í meðferð máls fyrir dómi er ýmislegt sem kann að breytast sem fær aðila til að verða viljugri en áður til sátta. Matsgerð getur kollvarpað málinu. Þá vill það gerast að mál er sætt í aðalmeðferð, oft þegar skýrslutökur eru búnar og aðilar sjá betur hvernig landið liggur. Þá getur nærvera dómarans ýmsu breytt, en það er auðvitað eins misjafnt og þeir eru margir. Í málum eins og forsjármálum og fasteignagallamálum, þar sem þörf er á sérfróðum meðdómanda, getur hann lagt mikilvægt framlag til umræðunnar sem gæti valdið vatnaskilum í málinu, enda er það jú dómarinn sem ákveður niðurstöðuna ef sátt næst ekki. Dómarar þurfa þó vitaskuld að fara varlega því ef svo vill til að sáttaviðræður fara út um þúfur og málið er tekið til dóms mega þeir ekki hafa látið nein orð falla sem bent geta til þess að þeir hafi tekið afstöðu til sakarefnisins og þannig orðið vanhæfir.


Það sem veldur því að aðilar eru tregir til sátta er að þeir átta sig oft ekki á því sem er framundan. Þar er meðal annars um að ræða, fyrir utan hættuna á að tapa málinu, hættuna á að bera ekki bara eigin málskostnað heldur líka málskostnað gagnaðilans. Aðili dómsmáls þarf að sýna því skilning að dómarinn er af holdi og blóði og kann að sjá málið með öðrum augum en aðilinn. Það er sjaldan á vísan að róa þegar kemur að dómstólunum. Ef dómsmál taka til eigna veldur það annmörkum við ráðstöfun þeirra meðan á málarekstri stendur. Þá taka dómsmál langan tíma, oft fleiri ár, og aðili áttar sig oft ekki á því hvað málið á eftir að valda mörgum andvökustundum á koddanum. Það réttlætir að minnsta kosti að gerðar séu alvöru tilraunir til sátta – og þá yfirleitt eftir að eitthvað hefur breyst í málinu eins og að ofan er lýst.


Af þeim sjö dómsmálum sem undirritaður hefur rekið fyrir dómi á þessu ári hefur náðst sátt í fimm þeirra. Í einu tilviki var skýrslutökum lokið í aðalmeðferð í fasteignagallamáli og komið að ræðum lögmanna. Í öðru tilviki var um að ræða forsjármál þar sem dómkvaddur matsmaður var búinn að gefa skýrslu fyrir dómi. Í þessum tilvikum voru aðilar mættir með lögmönnunum og flýtir það fyrir sáttaumleitunum, því til almenns lögmannsumboðs heyrir ekki heimild til að sætta mál án beins atbeina umbjóðandans. Oft greiðir það fyrir sáttinni að geta eftirlátið dóminum að úrskurða um það hver borga skuli málskostnað, en með slíkum úrskurði er oft látið í skína hver niðurstaða dómsmálsins hefði orðið, ef það hefði verið tekið til dóms.


Fyrst og fremst er þó ljóst að það næst ekki sátt í dómsmáli nema báðir aðilar þess brjóti odd af oflæti sínu og gefi eftir eitthvað af kröfum sínum. Gjarnan eru mál þannig vaxin að stóra verkefni lögmannanna og dómaranna á að vera að leiða aðilana í sannleikann um mögulegar afleiðingar ef sátt næst ekki. Að mati undirritaðs mætti vera meira um þá viðleitni. Samskipti aðila í framtíðinni verða líka að jafnaði betri ef máli hefur lokið með sátt fremur en dómi.

Konráð Jónsson lögmaður


bottom of page