top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Tilefnislaust málavafstur


Mikið veður hefur verið gert úr því í fjölmiðlum að undanförnu að nokkrum fréttamönnum hefur verið gefin réttarstaða sakborninga við rannsókn á máli sem varðar frásagnir þeirra af ætluðu ámælisverðu framferði stuðningsmanna fyrirtækisins Samherja hf. Hafa einhverjir þessara fréttamanna borið undir dómstóla spurninguna um hvort gefa megi þeim þessa réttarstöðu. Hafa þeir þá talið að lögverndaður trúnaður þeirra við heimildarmenn sína standi því í vegi, að þeir svari spurningum við rannsóknina. Féllst héraðsdómari á kröfu þeirra en Landsréttur breytti þeirri niðurstöðu fyrir fáum dögum og taldi dómstólum ekki heimilt að taka fram fyrir hendur lögreglu og ákæruvalds um þetta.


Ég verð að játa að ég sé ekki tilganginn með þessu vafstri og hávaða kringum það. Ástæðan er sú að þeim sem fengin hefur verið réttarstaða sakborninga, eins og þessum fréttamönnum, er heimilt að neita að svara spurningum við meðferð mála fyrir lögreglu og dómstólum. Vísast hér um rannsókn sakamála til 64. gr. laga nr. 88/2008 og um meðferðina fyrir dómi til 113. gr. sömu laga. Samkvæmt þessum lagaákvæðum er sökuðum mönnum heimilt að neita að svara spurningum um sakarefni máls. Staða þeirra er að þessu leyti sterkari en vitna sem ber skylda til að gefa vitnisburð við rannsókn og dómsmeðferð sakamála.


Af þessu er ljóst að einfaldast hefði verið fyrir fréttamennina að mæta og neita að svara spurningum sem þeir töldu sér óskylt að svara. Einfalt og fagurt.


Eftir stendur spurningin um tilganginn með þessum upphrópum og málavafstri um rannsóknina á hendur þeim. Var tilgangur þeirra kannski að geta skrifað fleiri fréttir um þetta?


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page