• Jón Steinar Gunnlaugsson

Stuðningur við siðleysi


Nú hafa þjóðinni verið borin þau tíðindi að einn af nýkjörnum Alþingismönnum hafi sagt skilið við stjórnmálaflokkinn sem hann var í framboði fyrir er hann hlaut kosningu. Það eru nokkrir dagar liðnir frá kosningum og ekki er vitað um nein tíðindi á vettvangi stjórnmála sem gefa manninum tilefni til þessara sinnaskipta. Ljóst er að hann bauð sig fram undir fölsku flaggi, enda hefur hann sjálfur ekki skýrt athæfi sitt með öðru en gamalli atburðarás sem lá öll fyrir löngu fyrir kosningarnar. Hann var einfaldlega að svindla á kjósendum, þegar hann lét kjósa sig fyrir flokk sem hann yfirgefur svo strax að kjörinu loknu vegna atvika sem lágu fyrir áður en kosið var.


Ég held ég myndi varla nenna að stinga niður penna til þess eins að áfellast þennan mann fyrir hátterni hans. Það er hins vegar ástæða til að staldra við og spyrja, hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt í þessu með honum? Með því háttalagi gerist sá flokkur meðsekur í háttsemi mannsins. Komið hefur fram í fréttum að enginn þingmanna flokksins greiddi atkvæði gegn því að taka við honum. Þingflokkurinn hefur þá upplýst að hann er til í að taka þátt í siðlausum brotum annarra ef hann aðeins telur sig hagnast á því – í þessu tilviki með því að fá viðbótaratkvæði á þingi.


Ekki gott.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður