top of page

Stjórnlyndi til skaða

Writer: Jón Steinar GunnlaugssonJón Steinar Gunnlaugsson

Það er eiginlega frekar ógnvænlegt að verða var við hversu margir vilja leysa öll vandamál mannanna með vali á stjórnlyndu fólki í áhrifastöður. Nú síðast náðu frambjóðendur kjöri með því að lofa þeim sem lægstu launin hafa að greiða þeim uppbætur á laun með framlögum úr ríkissjóði. Segja má að þarna hafi atkvæðin verið keypt með loforðum um fjárgreiðslur. Síðan hefur auðvitað komið í ljós að hinir kjörnu fulltrúar þessa framboðs geta ekki staðið við loforð sín eftir að þeir náðu kjöri og eru komnir í ráðherrastóla. Auðvitað ekki.


Ástæðan er einföld. Það þarf að afla fjár fyrir þessum útgjöldum. Ríkissjóður er fjárvana og skattheimta allt of mikil. Hún beinist auðvitað að þeim sem afla tekna með athafnafrelsi í atvinnulífinu og sjá þannig fyrir velferð almennings.


Mannfólkið ætti nú á dögum að hafa lært að velferð manna verður ekki tryggð með ráðum af þessu tagi. Ítrekað hefur komið í ljós að velferðin er mest hjá þeim ríkjum sem láta atvinnulífið um að afla tekna með athafnafrelsi án forsjár ríkisins. Þetta sést best með því að bera hagi manna saman, annars vegar í ríkjum sem byggja á atvinnufrelsi borgaranna og hins vegar í ríkjum sem vilja láta stjórnvöldin stýra atvinnulífinu og ætla svo að úthluta lífsins gæðum til borgaranna. Þetta leiðir ávallt til þess að stjórnsamt ríkisvald takmarkar persónulegt frelsi á öllum sviðum og er síðan í ofanálag ófært um að sjá borgurunum fyrir sambærilegri velferð og menn njóta í þeim ríkjum sem byggja á frelsi borgaranna til orðs og æðis.


Er ekki fyrir löngu kominn tími til að mannfólkið skilji þessi sannindi og hætti að leita þeirra einfeldningslegu lausna sem engan vanda leysa?


Jón Steinar Gunnlaugsson lögfræðingur

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin
bottom of page