• Jón Steinar Gunnlaugsson

Staðfesting á misnotkun dómsvalds


Hinn 19. desember 2017 voru kveðnir upp tveir dómar í Hæstarétti sem voru með miklum ólíkindum. Þar voru tveimur umsækjendum um dómarastöður við Landsrétt dæmdar miskabætur fyrir að hafa ekki verið skipaðir í stöðurnar. Þeir voru meðal þeirra fjögurra umsækjenda sem ráðherra felldi brott af forgangslista dómnefndar þegar gerð var tillaga til Alþingis um hverja skipa skyldi.


Ég skrifaði stutta grein um þessa dóma sem birtist í Morgunblaðinu 10. febrúar 2018 og Eyjunni sama dag. Erindi greinarinnar var að benda á að þessir dómar stæðust ekki lögfræðilega aðferðafræði, sem dómstólum er skylt að beita við úrlausnir sínar. Þeir væru hins vegar greinilega liður í valdabaráttu dómenda við handhafa framkvæmdavalds um hver skyldi ráða vali milli umsækjenda þegar skipað væri í dómarastöður. Dómaraelítan vildi ráða þessu og sýndi þarna að hún var tilbúin til að misbeita dómsvaldi sínu í þágu baráttunnar um völdin.


Grímulaus valdbeiting


Í grein minni sagði meðal annars:


„Dómarnir í desember standast ekki lögfræðilegar lágmarkskröfur. Þeir fela í sér grímulausa valdbeitingu gegn dómsmálaráðherra og þeim er einungis ætlað að refsa honum fyrir að lúta ekki fyrirmælum. Með þessum gjörðum sínum sýna dómarar að þeir hika ekki við að misbeita dómsvaldi sínu í þágu baráttu við ráðherra um valdið til að velja nýja dómara að dómstólum landsins. Það er mikið áfall fyrir alla sem unna hugmyndinni um hlutlausa dómstóla að þurfa að verða vitni að þessu.“

Rökleiðslur greindar


Þessa dagana er verið að dreifa nýjasta hefti af Tímaritinu Skírni. Þar er að finna greinina „Ólíku saman að jafna – Tilraun til röklegrar greiningar á lögfræðidrama“ eftir Gunnar Harðarson prófessor við sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Í grein sinni tekur höfundur sér fyrir hendur að greina rökleiðslur þessara hæstaréttardóma, texta þeirra og rökfræðina sem þeir byggjast á. Er skemmst frá því að segja að greining prófessorsins afhjúpar dómana. Eftir að menn hafa kynnt sér hana hljóta þeir að skilja að ekki stendur steinn yfir steini í rökfærslu þessara dóma.


Það er mjög alvarlegt mál að æðsti dómstóll landsins skuli hafa tekið upp baráttu við aðra handhafa ríkisvalds um meðferð valds á sviðum sem hreint ekki heyra undir dómstóla. Í stjórnarskránni er mælt svo fyrir að dómendur skuli í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum. Þeir njóta ótímabundinnar skipunar í embætti og þeim verður ekki úr embættum komið nema með dómi. Ástæðan fyrir þessari skipan er vitaskuld sú að dómstólar eru stofnanir sem taka ekki stjórnvaldsákvarðanir. Það gera ráðherrar samkvæmt 14. gr. stjórnarskrár. Dómarar eiga bara að dæma eftir lögum og þá auðvitað bestu vitund sinni um skýringu á lögum. Ef þeim væri falið vald til „huglægra“ ákvarðana myndu auðvitað fylgja reglur um ábyrgð þeirra á slíkum ákvörðunum og þá reglur um endurnýjað umboð sem þeir yrðu að leita reglulega eftir.


Vanhæfir í erindrekstri


Í þessum tveimur málum sátu ekki aðrir af föstum dómurum Hæstaréttar en forseti réttarins. Enginn þarf hins vegar að efast um að hinir fjórir sem kallaðir voru til setu í dómunum gengu bara til þeirra verka sem til var ætlast af þeim, enda allir innvígðir í valdaelítuna miklu. Í grein í Viðskiptablaðinu 26. mars s.l. var í þokkabót sýnt fram á að þessir lögfræðingar hefðu átt, vegna beinna tengsla sinna við sakarefnið, að teljast vanhæfir til setu í þessum málum samkvæmt almennum reglum um það efni.


Dómstóllinn sýnir sig í að vera tilbúinn til að misbeita valdi sínu í þágu hagsmunatengdrar valdabaráttu í stað þess að dæma eftir lögum. Hvarvetna í hinum vestræna heimi yrði það talið til stórtíðinda ef dómstólar yrðu uppvísir að misnotkun dómsvalds á borð við þá sem hér greinir. En ekki á Íslandi. Hér þegja fjölmiðlar þunnu hljóði. Það er eins og öllum sé sama um misnotkun dómsvaldsins, hversu augljós sem hún verður. Líklega mun það samt ekki ná svo langt að menn haldi áfram að þegja þunnu hljóði þegar og ef þessi misnotkun valds beinist að þeim sjálfum. Hver veit?


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin