• Jón Steinar Gunnlaugsson

Skrautpinni

Updated: Jun 25, 2019


Nú liggur fyrir að þrír sérstaklega tilkvaddir varadómarar í Hæstarétti hafa fallist á að veita Lögmannafélagi Íslands leyfi til að áfrýja til réttarins dómi Landsréttar 5. apríl í máli mínu gegn félaginu. Með þessum dómi hafði Landsréttur fellt úr gildi úrskurð úrskurðarnefndar lögmanna þar sem mér var veitt áminning fyrir að hafa ekki ávarpað dómstjórann í Héraðsdómi Reykjavíkur af nægilegri auðmýkt, eftir að hann hafði sýnt mér grófa rangsleitni við afgreiðslu á erindi sem ég sendi honum. Fyrir lá að ég hafði aðeins sent dómstjóranum bréf, sem sýndi vanþóknun mína á framkomu hans, en enginn vissi um, fyrr en hann tók sjálfur til við að auglýsa efni þess. Þetta varð stjórn LMFÍ tilefni til að hefja í sínu eigin nafni málsýfingar á mínar hendur fyrir úrskurðarnefndinni.


Dómur Landsréttar byggðist á því að stjórn LMFÍ hefði ekki haft lagaheimild til að kæra mig fyrir þessari nefnd. Ég hafði við meðferð málsins leitast við að benda félaginu á þetta, en ábendingin þaut sem vindur um eyru fyrirsvarsmanna þess. Allir lögmennirnir sem tóku þátt í afgreiðslu málsins á vettvangi félagsins studdu aðförina gegn mér. Kannski hefur komið hér við sögu orðtak úr Laxdælu um ráð sem illa gefast þegar fleiri koma saman?


Þýðingarmikið fyrir þjóðina?


Það var svo ótrúleg forherðing að óska leyfis til að mega áfrýja þessum dómi til Hæstaréttar. Það er eins og stjórnin hafi ekki getað hætt þessum ýfingum við mig. Hún studdi beiðni sína um áfrýjunarleyfi við sjónarmið um að þetta málaskak innan raða lögmanna væri svo þýðingarmikið fyrir þjóðina, að Hæstiréttur yrði um að fjalla!


Undanfarin ár hef ég leitast við að upplýsa þjóðina um afar ámælisverð vinnubrögð þessa æðsta dómstóls þjóðarinnar. Með því hef ég ekki aflað mér mikilla vinsælda þeirra sem þar stýra málum. Satt að segja hef ég endurtekið orðið var við hreina óvild þessara valdamiklu manna. Þeir hafa ekki viljað una því að maður sem er kunnugur vinnubrögðum þeirra við dómsýsluna segi frá. Öllum ætti hins vegar að vera ljóst hversu nauðsynlegt slíkt framtak er.


Gert út á persónulega óvild


Líklega hefur Lögmannafélagið viljað gera út á þessa óvild og lagt traust sitt á að hallað yrði á mig þar á bæ ef ágreiningsmál félagsins við mig yrði borið þar upp. Sú hefur núna orðið raunin. Að vísu viku allir reglulegir dómarar við réttinn sæti við afgreiðslu þessarar beiðni um áfrýjunarleyfi. Þetta er þekkt aðferð við að koma fram ranglætinu. Að kalla inn aðra lögfræðinga, sem vilja umfram allt að ganga í augun á valdaelítunni sem stjórnar dóminum. Ekki sakar svo þó að vitað sé að varamennirnir hafi sjálfir persónulega horn í síðu mannsins sem í hlut á.


Ótækar röksemdir


Röksemdirnar sem notaðar eru til að styðja niðurstöðuna um að veita áfrýjunarleyfið eru ótækar út frá lögfræðilegu sjónarmiði. Þar eru rök mín gegn beiðninni ekki nefnd einu orði. Hins vegar er sagt að með dómi Landsréttar „sé stoðum kippt undan eftirlitshlutverki leyfisbeiðanda“ (LMFÍ). Það munar ekki um það. Þess hefði mátt geta að LMFÍ hefur starfað um áratugi án þess að hafa nokkurn tíma lagt í eigin nafni mál fyrir úrskurðarnefndina! Það gerðist fyrst árið 2016 og var mitt mál annað af tveimur fyrstu. Er ekki annað vitað en ágætar stoðir hafi verið undir starfsemi félagsins allan þennan tíma.


Þá er einnig sagt að með dómi Landsréttar muni rísa álitamál „um réttaráhrif þeirra úrskurða sem þegar hafa gengið fyrir úrskurðarnefndinni sem leyfisbeiðandi hefur átt aðild að.“ Þetta eru nokkur mál sem stjórn LMFÍ hefur lagt fyrir nefndina á síðustu tveimur árum, eða eftir að málið gegn mér var lagt þar fyrir. Varadómararnir virðast telja að stjórnin hafi með þessum nýju málum rýmkað heimild sína til málsýfinga gegn starfandi lögmönnum.


Loks er svo að sjá að varadómararnir skilji ekki hvað átt er við í lögum, þar sem sagt er að úrslit máls þurfi „að hafa verulegt almennt gildi“ til þess að veita megi áfrýjunarleyfi. Telja dómararnir nóg að dómur í máli þessu „myndi hafa verulegt almennt gildi um skýringu á 27. gr.“ lögmannalaga, en sú lagagrein heimilar þeim, sem telur lögmann hafa gert á hluta sinn, að kæra hann fyrir nefndinni. Samkvæmt þessari ályktun myndu allar lögskýringar dómstóla hafa almennt gildi. Þá væri unnt að fá leyfi til að áfrýja öllum dómum Landsréttar til Hæstaréttar. Hvernig ætli standi þá á því að langflestum beiðnum um áfrýjunarleyfi er synjað af Hæstarétti eins og sjá má á heimasíðu hans?


Þessa fingurbrjóta í forsendum sínum hefðu varadómararnir getað forðast með því að lesa greinargerð mína í málinu, þar sem vikið var að þessu öllu. Með því að falla í þessa aulalegu pytti, sýna þeir að þeir hafa ekki einu sinni lesið hana. Þessi örlög ættu að kenna þeim að jafnvel dómar, þar sem niðurstaðan er ákveðin fyrirfram, krefjast vandaðri vinnubragða en þeir beittu. Og þá aðeins til að vernda þá sjálfa fyrir að verða ekki til athlægis með því að skrifa forsendur sem afhjúpa þá svo grimmilega og hér varð raunin.


Kannski sjórn Lögmannafélagsins ætti nú að skemmta skrattanum frekar en hún þegar hefur gert og senda úrskurðarnefndinni kæru á hendur mér fyrir að hafa sagt þessi deili á ákvörðun varadómaranna? Það yrði bara gaman að því.


Skrautpinni


Svo stendur á um mig að ég átti sæti í stjórn LMFÍ árin 1981-86, þar af sem formaður þrjú síðustu árin. Síðan var ég gerður að heiðursfélaga á árinu 2011. Í skjali sem hangið hefur í ramma uppi á vegg á skrifstofu minni segir svo um „sérstaka verðleika“ mína: „Starfaði sem lögmaður við góðan orðstír í 29 ár og sinnti fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir félagið.“ Ég hef nú tekið skjalið niður af veggnum.


LMFÍ er skyldufélag. Í því felst að starfandi lögmönnum er skylt að eiga aðild að félaginu. Ég get því ekki sagt mig úr því meðan ég gegni ennþá störfum sem lögmaður. Það myndi ég gera ef ég gæti. Ég þarf hins vegar varla að una því að teljast til heiðursfélaga í félagi sem brýtur svo gróflega gegn réttindum mínum eins og félagið hefur gert og leitar við það atbeina stofnunar sem allir sem fylgjast með ættu að vita að ber til mín haturshug.


Ég hef því sent þessu félagi bréf með ósk um að nafn mitt verði tekið af skrá þess yfir heiðursfélaga. Ég get hreinlega ekki hugsað mér að vera skrautpinni í félagi sem brýtur með þessum hætti rétt á mönnum og forherðist síðan í þeirri viðleitni.


Jón Steinar Gunnlaugsson er fyrrverandi skrautpinni hjá LMFÍ

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin