• Jón Steinar Gunnlaugsson

Skýringar fræðimanns

Það er hlutverk fræðimanna í lögfræði að skýra dóma æðsta dómstólsins, þannig að menn geti áttað sig á hvað í þeim felist. Þegar Hæstiréttur sakfellir menn fyrir umboðssvik, án þess að telja auðgunarásetning sannaðan, eins og lög krefjast, er gott fyrir okkur ófróð að fá að vita hvaða skilyrði rétturinn býr til og setur í staðinn fyrir skilyrðið sem lögin áskilja.

Friðrik Árni Friðriksson Hirst skrifar í Morgunblaðið s.l. þriðjudag, að í staðinn fyrir sönnun á auðgunarásetningi hafi Hæstiréttur ákveðið að komið hafi „veruleg fjártjónshætta“. Það er auðvitað hvergi í lögum að finna heimild fyrir því að rétturinn megi gera þetta. En hann hefur samt gert það aftur og aftur. Og þá er þarft að fræðimenn segi okkur nánar efni þessa nýja skilyrðis fyrir refsingum sem hvergi er heimilað í lögum.

Friðrik Árni reynir að gera þetta. Hann dregur nánast þá ályktun af dómaframkvæmd Hæstaréttar að misnotkun á aðstöðu sé þáttur í skilyrðinu um auðgunarásetning. Þetta er skrítið þar sem þetta eru tvö aðskilin skilyrði fyrir því að refsa megi fyrir brot gegn ákvæðinu. Það er auðvitað engin glóra í því að rétturinn hendi út skilyrðinu um auðgunarásetning á þeirri forsendu að aðstaða hafi verið misnotuð. Samt er auðvitað nauðsynlegt að menn átti sig á aðferðafræði réttarins, ef það er á annað borð mögulegt. Friðrik Árni reynir að gera það og á skilið hrós fyrir þá viðleitni.

Valin dæmi

Því miður tekst honum ekki alveg nægilega vel upp því hann velur aðeins úr dóma þar sem hann telur að þessu tilbúna skilyrði hafi verið fullnægt. Hann sleppir hins vegar öðrum þar sem svo var sýnilega ekki. Þannig tekur hann til dæmis ekki með dóm réttarins frá 8. október 2015 í máli nr. 456/2014 (Ímon), þar sem Hæstiréttur sneri sýknudómi í héraði í áfellisdóm í Hæstarétti. Í því máli hafði bankinn verið að selja hlutabréf sem hann átti sjálfur. Fyrir lá í málinu að lánsféð fór aldrei út úr bankanum, því bankinn tók það sjálfur til greiðslu á hlutabréfunum sem viðsemjandinn var að kaupa. Hlutabréfin urðu kaupandanum heldur ekki frjáls til ráðstöfunar, þar sem bankinn hélt þeim til tryggingar fyrir endurgreiðslu lánsins.

Nokkrum dögum síðar féll bankinn og hin seldu hlutabréf urðu verðlaus. Það hefðu þau auðvitað líka orðið þó að bankinn hefði átt þau áfram. Bankinn beið því engan skaða af þessum viðskiptum og aldrei skapaðist nein hætta á því að svo færi.

Í forsendum Hæstaréttar í málinu var tekið fram, að hinir ákærðu hefðu við þessa lánveitingu farið að öllu leyti eftir skriflegum reglum bankans um það efni. Jafnframt var auðvitað ljóst að sakborningar höfðu ekki í hyggju að láta nokkurn mann auðgast á kostnað bankans, hvorki sjálfa sig né viðsemjandann. Það hefðu reyndar verið einhvers konar hugarórar að ímynda sér að slíkt hafi vakað fyrir þeim. Augljóst var í málinu að viðskiptin höfðu af þeirra hálfu verið gerð í þágu bankans. Engin aðstaða hafði verið misnotuð, engum hagsmunum var fórnað og enginn auðgunartilgangur fólst í viðskiptunum.

Við hljótum að meta viðleitni fræðimanna við að varpa ljósi á forsendur dóma, og þá ekki síst þegar beitt er tilbúnum refsiskilyrðum, sem fræðimenn höfðu ekki áttað sig á fyrr að koma mættu í staðinn fyrir hin lögmæltu skilyrði. Eigi þessi viðleitni að gagnast okkur verða viðkomandi fræðimenn að skoða öll dæmi um slíkt en ekki einungis þau sem þjóna þeim tilgangi sem þeir kunna að vilja þjóna.

Brúarlánin

Friðrik Árni telur að dómar Hæstaréttar séu ekki líklegir til að notast sem fordæmi í tilvikum svonefndra brúarlána, sem stjórnvöld hvetja nú banka til að veita, þó að vitað sé að hluti þeirra muni aldrei fást endurgreiddur. Ég er sammála því. Að vísu er það svo að við veitingu slíkra lána mun viðkomandi banka verða valdið augljósri og „verulegri fjártjónshættu“. Hrundómarnir gera slíkar lánveitingar refsiverðar. En nú munu lánin verða veitt fyrir hvatningu stjórnvalda, hvað sem allri tapsáhættu líður. Það mun því ekki þurfa neina „misnotkun á aðstöðu“ starfsmanna banka til að tapa þessum peningum bankanum til tjóns vegna þess að allir vita fyrirfram að slíkt tjón muni af hljótast. Og það er afar líklegt að spá Friðriks Árna um að þetta teljist verða í lagi muni rætast ef á það reynir fyrir dómi. En það er þá aðallega vegna þess að dómstóllinn er ekki líklegur til að fylgja eigin fordæmum við lögskýringar ef vindurinn blæs úr annarri átt en hann gerði áður.

Er ekki lífið í lögfræðinni dásamlegt?

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin