top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Sjálftaka


Sagt hefur verið frá því í fjölmiðlum að einstakir lögmenn og stofur þeirra hafi tekið tugi milljóna króna í þóknun á mánuði fyrir að hafa stýrt skiptum á slitabúum félaga sem komin eru í þrot. M.a. var nú sagt frá því í blaði að þekktur lögmaður á stórri stofu hefði haft 25 milljónir í tekjur á mánuði við slit á svona búi á árinu 2015. Þá hefur komið í ljós að lögmannsstofa þessa manns hafi tekið viðlíka þóknanir fyrir slitastjórn í öðrum þrotabúum. Hið sama mun eiga við í tilvikum þar sem aðrar stofur eiga hlut að máli.


Þetta er með miklum ólíkindum og er stétt lögmanna til mikils vansa. Svo mun standa á að slitastjórarnir sjálfir skammta sér svona þóknanir. Þeir sem eiga fjárhagsmuni í búunum virðast ekki vilja að bera þessa sjálftöku undir dóm, hverju sem þar er um að kenna.


Þetta framferði lögmannanna er stórlega vítavert og hlýtur að brjóta gróflega gegn starfsskyldum þeirra við að gæta þeirra hagsmuna, sem þeim er trúað fyrir. Ekki er ólíklegt að í þetta kunni að varða við ákvæði almennra hegningarlaga. Í ofanálag hefur þessi háttsemi þau áhrif að lögmannastéttin er stimpluð sem hópur ræningja sem notfærir sér aðstöðu sína til að féfletta aðila sem eiga fjárhagslega hagsmuni undir.


Ástæða er til að skora á alla þá sem hafa orðið fyrir barðinu á þessari sjálftöku lögmanna til að bregðast nú við og leita allra lögmætra leiða til að draga þessa sjálftökumenn til ábyrgðar fyrir háttsemi sína.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður


Viðbót: Þó að ekki komi það fram í pistli mínum var þar verið að fjalla um skiptameðferð á Straumi í textanum. Ég byggði það sem ég skrifaði á pistli úr Mannlífi. Nú hefur mér verið bent á að nauðasamningum fyrir Straum-Burðarás lauk á árinu 2010. Hef ég sannreynt að það er rétt. Lögmaðurinn, sem er að vísu ekki heldur nafngreindur, hafði því ekki þær þóknunartekjur sem ég taldi í þessari frásögn. Biðst ég velvirðingar á þessu því öll viljum við hafa það sem sannara reynist. Hvað sem þessu líður er samt stóra málið að margir lögmenn notuðu tækifærið við slitameðferð, einkum banka eftir hrunið, að sjálftaka sér þóknanir sem fóru fram úr öllu velsæmi.

bottom of page