top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Samningur er kominn á


Ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Þetta gerði hann með sérstakri heimild sem er að finna í 27. gr. laga nr 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.


Lögin geyma ákvæði um að slíka tillögu skuli bera undir deiluaðila og skuli stéttarfélagið sem í hlut á efna til atkvæðagreiðslu félagsmanna sinna undir forsjá ríkissáttasemjara. Atkvæðagreiðslan þjónar samkvæmt lögunum þeim tilgangi að gefa félagsmönnum kost á að fella tillöguna.


Þannig segir í 31. gr. laganna:


„Miðlunartillaga telst felld í atkvæðagreiðslu ef meira en helmingur greiddra atkvæða er á móti henni og ef mótatkvæði eru fleiri en fjórðungur atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá.“

Þessar lagareglur tryggja því rétt þess stéttarfélags sem í hlut á til að fella tillögu ríkissáttasemjara í atkvæðagreiðslu. Hún er hins vegar ekki háð samþykki félagsins.


Í yfirstandandi deilu kom forysta Eflingar í veg fyrir að ríkissáttasemjari fengi að bera miðlunartillöguna undir félagsmennina og lét það koma skýrt fram að það fengi hann ekki að gera. Þar með varð ljóst að félagsmenn Eflingar áttu þess ekki kost að fella miðlunartillöguna. Hún varð því ekki felld með þeim hætti sem lögin ráðgera að kunni að verða.


Í þessari atburðarás felst að kominn er á samningur með því efni sem felst í miðlunartillögu ríkissáttasemjara, þar sem félagið sem í hlut á hefur ekki fellt hana á þann hátt sem lögin kveða á um. Af því leiðir að þessu stéttarfélagi er ekki heimilt að halda uppi verkfalli því sem nú hefur gengið í garð. Það er heldur ekki sérstök þörf á að halda samningafundi á vettvangi ríkissáttasemjara, þó að slík fundarhöld séu svo sem aðilum heimil.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page