• Jón Steinar Gunnlaugsson

Samningar um dómsniðurstöður


Þegar dómstólar ljúka dómi á sakarefni dómsmáls ber brýna nauðsyn samkvæmt lögum til þess að þeir beiti öguðum og lögmætum sjónarmiðum. Í 61. gr. stjórnarskrár okkar segir þannig, að dómendur skuli í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum. Í þessu felst að dómendum sé óheimilt að láta ólögfest huglæg sjónarmið sín eða skoðanir hafa áhrif á niðurstöðuna. Það eru lögin sem eiga að ráða.


Nú er ekki unnt að finna sett lagafyrirmæli um allt það sem á kann að reyna við meðferð máls fyrir dómi. Það breytir ekki kröfunni um öguð vinnubrögð. Í lögfræði er kennd sú aðferðafræði sem heimilt er að viðhafa við úrlausn ágreiningsmála. Sá efniviður sem heimilt er að beita nefnist réttarheimildir. Þar eru stjórnarskrá og sett lög efst á blaði, en gæti ekki slíkra heimilda reynir á beitingu réttlægri heimilda sem svo eru nefndar. Meðal þeirra eru heimildir sem við köllum eðli máls, fordæmi og meginreglur laga. Þegar reynir á beitingu slíkra heimilda er dómendum sem fyrr óheimilt að láta persónuleg viðhorf ráða dómum sínum. Leit að heimildum þessum og beiting þeirra verður að vera hlutlæg og laus undan persónulegum óskalista dómara.


Frá ungum aldri mínum í lögfræðinni hef ég leitast við að beita þessum viðhorfum bæði í kenningum og framkvæmd. Ég átti til dæmis fyrir mörgum áratugum í ritdeilu við einn kennara minna í lagadeildinni um þetta en hann hélt því m.a. fram að dómstólar færu með vald til að setja nýjar lagareglur, sem fóru í bága við lög sem Alþingi hafði sett, og beita þeim síðan til lausnar ágreiningsefnis. Frá þessari deilu segi ég í endurminningabók minni „Í krafti sannfæringar“, sem út kom á árinu 2014.


Ég hef haldið því fram að dómari, eða hver sá annar sem í hlut á, verði að ganga út frá þeirri forsendu að einungis ein niðurstaða sé rétt í því ágreiningsefni sem hann vill leysa úr. Verkefnið sé að finna hana. Það geti oft verið flókið og erfitt en allt að einu sé þetta markmið þess aðila sem úr skal leysa. Ég reyndi að viðhafa þetta sjónarmið í starfi mínu sem dómari við Hæstarétt á árunum 2004 til 2012. Leiddi það til þess að ég skrifaði fleiri sératkvæði en aðrir dómarar á þessu tímabili.


Flestir hinna dómaranna töldu sig hafa rýmri heimildir í dómsstarfinu. Reglulega gætti dæma um úrlausnir þeirra sem bersýnilega voru andstæðar efni þeirra réttarheimilda sem þeim bar að mínum dómi skylda til að beita. Stundum blasti við að þeir væru að beita huglægum vildarsjónarmiðum, þó að samdar væru forsendur sem ætlað var að fela þetta.


Merkilegt viðtal birtist í útvarpsþætti Kristjáns Kristjánssonar fréttamanns „Sprengisandur“ s.l. sunnudag. Þar var talað við einn fyrrverandi starfsbræðra minna í réttinum Eirík Tómasson. Hann lýsti í viðtalinu vinnubrögðum sem tíðkuðust í Hæstarétti þegar tekin var afstaða til sakarefnis dómsmálanna. Hann gerði að vísu allt of mikið úr því að dómarar kæmu vel undirbúnir til þess verks sem fyrir lá. Oft var það því miður ekki svo. Það sem hins vegar skipti mestu máli í ræðu Eiríks var lýsing hans á viðleitni hópsins til að ná samkomulagi um niðurstöðuna og forðast sératkvæði. Lýsti hann því hvernig dómendur gáfu eftir á sjónarmiðum sínum og sömdu við hina um niðurstöðuna. Að þessu leyti var lýsing hans rétt, enda má sjá dæmi á löngu árabili um að sumir dómaranna skiluðu aldrei sératkvæðum. Dómarnir voru byggðir á samkomulagi, þar sem einhverjir í hópnum féllust á að beita ekki þeim réttarheimildum sem þeir töldu eiga við til að finna rétta niðurstöðu og féllust á að fljóta með öðrum sem töldu að standa ætti að málum á annan veg og þá hugsanlega fyrst og fremst í þágu niðurstöðu sem þeir töldu æskilega. Líkti hann þessu við samninga á vettvangi stjórnmála.


Ég upplifði það svo að þessi vinnubrögð leiddu til agaleysis við dómsýsluna. Það var eins og dómendur færu að trúa því að þeim væri miklu meira heimilt en stjórnarskrá og meginreglur leyfðu. Þannig urðu til dómsniðurstöður sem engan veginn stóðust. Hef ég skrifað um ýmsar þeirra og þá jafnan rökstutt nákvæmlega hvað fór úrskeiðis.


Ég hef kvartað yfir því að gagnrýni minni hafi aldrei verið svarað af þeim sem að verki stóðu. Nú hefur Eiríkur Tómasson, einn úr hópnum, rofið þögnina og staðfest réttmæti þess sem ég hef lýst. Hafi hann þökk fyrir.


Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við Hæstarétt