Engin áhöld eru um að regla um sakleysi þar til sekt er sönnuð gildir í öllum refsimálum án tillits til efnis þeirra meintu afbrota sem ákært er fyrir. Það er embættisskylda handhafa dómsvaldsins hér á landi sem annars staðar á Vesturlöndum að beita henni alltaf. Sé skynsamlegur vafi um sekt hins ákærða ber að sýkna hann. En ætli íslenskir dómstólar fari alltaf eftir þessari brýnu skyldu sinni?
Í bók minni „Í krafti sannfæringar“ sem út kom á árinu 2014 er á bls. 308-318 að finna kafla um sönnun kynferðisbrota. Sá flokkur afbrota er þar tekinn til sérstakrar umfjöllunar vegna þess að íslenskir dómstólar hafa sýnt sig í að beita oft hreint ekki fyrrnefndri reglu í þessum flokki afbrota. Verður ekki betur séð en þeir vilji með þessum hætti reyna að ganga í augu þeirra, sem virðast alltaf telja sök sannaða ef meintur þolandi brots ber fram ásakanir um það. Skiptir synjun ákærða þá engu máli og heldur ekki skortur á sönnun um brot.
Fróðlegt er að athuga hvort hér hefur orðið breyting á þann tíma sem liðinn er frá umfjöllun minni í bókinni. Ég hef svo sem ekki gert á þessu sérstaka könnun en er allt að einu kunnugt um a.m.k. einn nýlegan dóm þriggja dómara í Landsrétti þar sem ungur maður var dæmdur fyrir kynferðisbrot þegar stúlka bar á hann sakir fyrir að hafa strokið henni um afturendann og kynfæri utan klæða. Hann kannaðist ekki við þetta og voru ekki í málinu bornar fram neinar marktækar sannanir um „brotið“. Var hann samt sakfelldur.
Í þessu tilfelli varð þessi áfellisdómur til þess að ungi maðurinn var rekinn úr vinnu og stimplaður í heimahögum fyrir að vera kynferðisbrotamaður. Þá þurfti hann að greiða háan málskostnað. Það er eins og dómararnir átti sig ekki á þeim spjöllum sem þeir vinna á hagsmunum sakborninga í málum af þessu tagi, þegar þeir dæma þá eftir geðþótta sínum. Eina ástæðan fyrir slíku hátterni dómara hlýtur að vera sú að þeir vilji þjóna almenningsálitinu. Þetta felur í reynd í sér verra brot en pilturinn var ákærður fyrir í málinu.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður
Comments