top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Réttarríki í þröng?


Ég tel vera þýðingarmikið fyrir alla menn að hafa einhverjar grundvallarreglur (prinsipp) til að styðjast við í lífinu og við tjáningu um þjóðfélagsmálin.


Þær sem snúa að gerð þjóðfélags okkar og mér finnst skipta mestu máli má oftast fella undir orðin lýðræði og réttarríki. Í þessum hugtökum felast þau meginatriði sem við flest viljum virða og teljum að eigi að vera ráðandi í samskiptum okkar á milli. Til þeirra heyrir til dæmis að láta hlutlægar lagareglur ráða réttarstöðu manna en ekki persónulegar skoðanir okkar á þeim.


Á þessi viðhorf reyndi m.a. í sakamálum sem höfðuð voru eftir „hrunið“, þar sem fyrirsvarsmenn og stjórnendur banka voru sóttir til saka fyrir þær hörmungar sem margir máttu þá líða. Þessir menn voru ekki mjög vinsælir á þessum tíma og hugsuðu margir þeim þegjandi þörfina. Meðal þeirra voru áhrifamenn í þjóðfélaginu sem leyndu ekki óvild sinni á þessum sakborningum. Allt var þetta skiljanlegt enda ekkert sem bannar mönnum að hafa skoðanir á öðru fólki og gjörðum þess svo lengi, sem það er ekki sakað um refsiverða háttsemi sem ekki hefur verið sönnuð eða viðurkennd.


Þessar hugsanir mega hins vegar ekki ná inn í réttarsalina eins og þær þó gerðu. Þar voru menn sakfelldir á ófullnægjandi forsendum, eins og ég hef sýnt fram á í skrifum um nokkra dóma. Ekki varð betur séð en dómararnir væru að friðþægja almenningi með því að fella dóma sína án þess að lögfull skilyrði væru til þess. Og málsmetandi menn fögnuðu þessu og töldu réttlætinu fullnægt.


Fjölmörg önnur dæmi má finna um þá frumstæðu hegðun sem huglæg afstaða til sakborninga eða sakarefnis dómsmála framkallar hjá fólki. Dæmi um það eru kynferðisbrotin. Í þeim málaflokki gildir auðvitað sú gullvæga meginregla, sem við varðveitum m.a. í stjórnarskrá okkar og kveður á um að menn skuli teljast saklausir af refsiverðum brotum þar til sekt þeirra hafi verið sönnuð, þannig að ekki sé skynsamlegur vafi á sökinni.


Við þekkjum öll vel það ófremdarástand sem tekið hefur að ráða ríkjum í samfélaginu, þegar einstakir menn hafa verið sakaðir um svona afbrot, sem þeir neita sjálfir að hafa drýgt, og engin sönnun liggur fyrir um. Þeir eru einatt látnir taka öllum hinu verstu samfélagsáhrifum af meintum brotum, án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér. Dæmin eru þau að þeir missi atvinnu sína og eigi þess engan kost að fá nýtt starf annars staðar. Hér er í reynd vikið til hliðar þeim þýðingarmiklu grundvallarreglum, sem standa undir því að við getum kallað samfélag okkar siðmenntað og talið það til réttarríkja. Og ráðist er á þá borgara sem leyfa sér að koma svona sakborningum til varnar á þeim grundvelli að sök þeirra sé ósönnuð, og að okkur beri að virða hvers kyns réttindi þeirra meðan svo er. Sjálfur hef ég haldið uppi málflutningi um þetta í þágu hins siðaða samfélags og hef af því tilefni orðið fyrir ásökunum um að vilja styðja ofbeldismenn. Ég er bara bláeygur drengur úr Hlíðunum sem hefur megna óbeit á hvers kyns ofbeldi og þá ekki síst því ofbeldi sem beitt er inni á heimilum sakborninganna og oft er erfitt að sanna. Við sem viljum að réttarríkið ráði líka á erfiðum málasviðum, eins og þeim sem hér um ræðir, viljum ekki láta undan þeirri framkomu fjölmargra borgara að sakfella yfirleitt alla sem bornir hafa verið sökum af þessu tagi. Ég segi bara við mannfólkið: Reynið að skilja að miklu þýðingarmeiri verðmæti eru í húfi en þau sem leyfa ykkur að bera ósannaðar refsiverðar sakir á samborgara ykkar.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page