• Jón Steinar Gunnlaugsson

Persónulegt yfirráðasvæði forseta Hæstaréttar?


Lög um dómstóla nr. 50/2016 tóku gildi 1. janúar 2018. Í 17. gr. þeirra er að finna ákvæði um varadómara í Hæstarétti.


Þar segir svo:

„Varadómarar.

Nú geta færri en fimm, eða eftir atvikum sjö, hæstaréttardómarar tekið þátt í meðferð máls vegna vanhæfis, leyfis eða annarra forfalla til skamms tíma og setur þá ráðherra samkvæmt tillögu forseta Hæstaréttar dómara til að taka sæti í því. Varadómari skal koma úr röðum fyrrverandi dómara en sé það ekki unnt þá úr röðum annarra sem fullnægja skilyrðum til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr. Heimilt er að setja dómara samkvæmt ákvæði þessu þótt hann hafi náð 70 ára aldri."


Á tímanum sem liðinn er frá gildistöku þessara laga hefur oftsinnis komið fyrir að kallaðir hafi verið inn varadómarar til setu í einstökum málum. Sérstaklega var þetta áberandi á árinu 2018, þegar varadómarar sátu í nær öllum málum sem dæmd voru það ár. Í fjölmörgum tilvikum komu varadómarar úr röðum lögfræðinga sem ekki höfðu setið í dómaraembættum í Hæstarétti og töldust því ekki til fyrrverandi dómara við réttinn. Samkvæmt ársskýrslu réttarins fyrir árið 2018 voru þeir 31 talsins og voru þeir flestir kallaðir til oftar en einu sinni. Fleiri hafa svo bæst við síðan. Þessa lögfræðinga var samkvæmt lögunum því aðeins heimilt að kalla til starfa að ekki væri unnt að setja fyrrverandi dómara við réttinn til að gegna þeim.


Ég var skipaður dómari við Hæstarétt 15. október 2004 og starfaði til 30. september 2012. Til mín hefur samt aldrei verið leitað á ofangreindu tímabili með ósk um að taka sæti sem settur varadómari. Fæ ég ekki betur séð en að í þessu efni hafi verið farið gegn fyrrgreindum lagafyrirmælum með því að kalla til setu fjölda lögfræðinga sem aldrei hafa gegnt dómaraembættum við réttinn og teljast því ekki til fyrrverandi dómara.


Þegar ég spurðist fyrir um þetta með bréfi til réttarins á síðasta ári fékk ég svar þar sem fram kom að forseta réttarins væri „í sjálfsvald sett“ til hvaða fyrrverandi hæstaréttardómara hann leitaði þegar hann óskaði eftir setningu varadómara. Hann svaraði engu um hina sem ekki voru fyrrverandi dómarar við réttinn. Lögin eru alveg skýr um að heimild til að leita til þeirra er bundin við að það sé ekki unnt að fá fyrrverandi dómara til verksins.


Ég spurði því nánar um þetta í tölvubréfi 20. október 2020. Þar segir svo:

„Mér var að berast svarbréf yðar við tölvupósti mínum um setningu varadómara sbr. 1. mgr. 17. gr. laga um dómstóla.

Í bréfinu kemur fram að forsetinn telji sér það í sjálfsvald sett til hvaða fyrrverandi hæstaréttardómara hann leitar þegar hann óskar eftir setningu varadómara. Svo er að sjá að sjálfsvaldið taki aðeins til vals milli fyrrverandi dómara. Er það rétt skilið?

Svarið fær ekki staðist. Forsetanum er auðvitað skylt að fara eftir þessum einföldu lagafyrirmælum. Í tilefni svarsins er síðan rétt að spyrja um ástæður þess að forsetinn hefur ákveðið að sniðganga mig í öll þau skipti sem á þetta hefur reynt? Ræður þar persónuleg afstaða hans til mín? Er ekki sjálfgefið að hann upplýsi mig um ástæður sínar fyrir slíkri afstöðu? Sé þetta raunin er þetta þá frambærileg forsenda við þessar ákvarðanir? Lítur forsetinn á dómstólinn sem persónulegt yfirráðasvæði sitt sem hann megi ráðskast með að vild?“


Við þessu fékk ég svo í bréfi 23. október 2020 hrokafullt svar. Þar var sagt að erindi mínu hefði verið svarað með bréfinu 16. október. Var sagt að tölvubréf mitt kallaði ekki á frekari útskýringar eða svör af hálfu Hæstaréttar.


Fyrir liggur að núverandi forseti Hæstaréttar er ekki meðal áköfustu aðdáenda minna, þó að ég eigi erfitt með að skilja hvers vegna það er. Þessi lestur hans á texta 17. gr. dómstólalaga er hins vegar með nokkrum ólíkindum. Forseti réttarins virðist hreinlega telja að honum sé heimilt í embættisverkum sínum að víkja til hliðar skýrum fyrirmælum settra laga í þágu geðþótta síns og persónulegrar afstöðu til einstakra manna. Er þetta réttinum sæmandi?


Ástæða er til að taka fram að ég sækist ekki sérstaklega eftir störfum sem varadómari við Hæstarétt. Ég er hins vegar áhugamaður um að rétturinn fari að lögum í sýslan sinni.


Upplýsingar um þetta eiga að mínum dómi erindi til almennings. Mér þótti eðlilegt og sanngjarnt að gefa forseta Hæstaréttar kost á að bregðast við framangreindum sjónarmiðum áður en ég birti opinberlega upplýsingar um þetta. Frestur sem ég gaf honum til þess er liðinn. Hann virðir mig ekki svars.


Niðurstaðan er sú að þessi æðsti dómari landsins fer ekki eftir skýrum fyrirmælum í lögum, ef geðþótti hans stendur til annars. Er slíkum manni treystandi fyrir dómsvaldi? Gerir hann kannski bara það sem honum sýnist við meðferð þess? Kannski lesendur ættu að svara þessu hver fyrir sig?


Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari