• Jón Steinar Gunnlaugsson

Níð í boði RÚV


Það er dálítið undarleg lífsreynsla að þurfa að hlusta á hreinan róg um sjálfan sig sem borinn er fram á opinberum vettvangi, fleytt áfram af slúðrandi alþingismönnum og sjónvarpað í umræðuþætti í sjónvarpi allra landsmanna, Ríkisútvarpinu. Þar á ég við skrafþáttinn „Silfrið“ sem sjónvarpað var sunnudaginn 14. mars.


Tilefnið fyrir þessum ódæmum er að ég var notaður til pólitískra árása á dómsmálaráðherrann fyrir þær sakir að hafa falið mér verkefni að tillögum um hröðun meðferðar sakamála. Ég væri nefnilega óvildarmaður þolenda kynferðisbrota og verndari ofbeldismanna á því sviði. Þessar ásakanir á mínar hendur voru með öllu tilhæfulausar. Virðast þær hafa átt rót sína að rekja til þess að ég hef talið nauðsynlegt að sanna brot á sakborninga í slíkum málum ef dæma á þá til refsingar. M.a. er kveðið á um þetta í stjórnarskránni. Töldu rógberar ekki stætt á að fela mér verkefnið um meðferð sakamála, þó að engin leið væri að skilja sambandið á milli þessara ósönnu ávirðinga minna og verkefnisins.


Mér sýnist að orðgapar samfélagsins séu farnir að ganga út frá ávirðingum mínum sem vísum án þess að þurfa að finna þeim stað hverju sinni. Þannig var það til dæmis í silfraða þættinum í sjónvarpi allra landsmanna, þar sem þrír af fjórum viðmælenda í þættinum töluðu fyrirvaralaust um mig sem þrjót sem beitti sér gegn þolendum ofbeldisbrota. Ekki þótti ástæða til að gefa mér kost á að koma fram mínum sjónarmiðum um sjálfan mig í þessum þætti.


Eftir að hafa hlustað á þennan boðskap í sjónvarpi allra landsmanna hafði ég samband við stjórnandann, Fanneyju Birnu Jónsdóttur, með ósk um að hlutur minn yrði réttur með því að gefa mér kost á að skýra mína hlið á málinu. Ég var jú maðurinn sem talað hafði verið um. En óekkí. Konan svaraði því til að ég væri eitthvað sem hún kallaði „opinbera persónu“ og um slíkar persónur mætti fjalla einhliða með meiðingum án þess að gefa þeim kost á að tjá sig.

Það er gott að geta verið dagskrárstjóri á ríkismiðlinum og fara þar með vald til að miðla almenningi hrakyrðum um menn án þess að gefa þeim möguleika til andsvara.


Þetta er að mínum dómi í besta falli lágkúra en í því versta mannorðsmorð. Spurningin sem eftir stendur er sú hvort Íslendingar vilja að haldið sé áfram að reka fjölmiðil sem í nafni þjóðarinnar hagar sér svona.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður