top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Málskostnaður í máli forsetans gegn mér


Þegar menn takast á fyrir dómi leita þeir oftast lögmannsaðstoðar við að reka málið fyrir sig. Það kostar peninga. Í lögum er að finna ákvæði um að sá sem „tapar máli í öllu verulegu“ skuli að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Þá er átt við þann kostnað sem gagnaðilinn hefur orðið fyrir vegna málarekstursins.


Venjulega gera báðir málsaðilar kröfu á hendur hinum um að fá málskostnað sinn greiddan úr hans hendi. Lögin gera ráð fyrir að aðili sem krefst málskostnaðar síns úr hendi gagnaðila geri grein fyrir honum með sérstökum málskostnaðarreikningi sem lagður er fram við aðalmeðferð máls.


Fyrir kemur að í dómi sé kveðið á um að málskostnaður sé felldur niður. Í því felst ákvörðun um að hvor aðila skuli bera sinn kostnað sjálfur. Er þetta m.a. heimilt ef veruleg vafaatriði þykja vera í máli.


Ef sá sem tapar máli, áfrýjar dómi til æðra dómstigs og svo fer að hinn áfrýjaði dómur er staðfestur er áfrýjandinn að jafnaði dæmdur til að greiða hinum kostnað hans á áfrýjunarstigi. Þetta má heita nær algild regla og þá ávallt ef forsendur æðra dóms fyrir niðurstöðu sinni eru hinar sömu og var á neðra stiginu.


Í máli Benedikts Bogasonar gegn mér sem dæmt var í Hæstarétti s.l. föstudag höfðu báðir aðilar uppi kröfur á öllum þremur dómstigum um að gagnaðili greiddi þeim málskostnað. Af minni hálfu var, eins og menn vita, krafist sýknu af kröfum Benedikts. Var sú krafa einfaldlega byggð á því að ég hefði notið málfrelsis til að segja það sem ég hafði sagt í kafla bókar minnar um dóminn í máli Baldurs Guðlaugssonar. Héraðsdómarinn féllst á þetta og sýknaði mig af kröfum Benedikts, en felldi niður málskostnað. Það var skrýtin afgreiðsla og ekki í samræmi við dómaframkvæmd.


Benedikt áfrýjaði þessum dómi til Landsréttar sem staðfesti héraðsdóminn með sömu rökum. Málskostnaður fyrir Landsrétti var samt felldur niður. Þetta var furðulegt og andstætt fyrri dómaframkvæmd. Benedikt áfrýjaði þessum dómi til Hæstaréttar að fengnu áfrýjunarleyfi. Allt fór á sama veg. Ég var sýknaður með sömu röksemdum og fyrr um að ég hefði notið tjáningarfrelsis til að segja það sem ég sagði. Samt var málskostnaður fyrir Hæstarétti felldur niður. Þessi afgreiðsla er ennþá undarlegri en sú sem varð í Landsrétti.


Niðurstaðan er þá sú að valdsmaðurinn mikli er látinn komast upp með að stefna mér fyrir dóm og valda mér á þremur dómstigum verulegum kostnaði, sem ég fæ ekki borinn uppi, þó að ég sé sýknaður á öllum þremur á þeim forsendum sem ég hafði byggt málflutning minn á frá upphafi. Þessi afgreiðsla er rökstudd með því að verulegur vafi hafi verið á að ég hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis með ummælum mínum um þennan dóm. Ummæli mín hafi verið beinskeytt og hvöss eins og komist er að orði í forsendum dóms Hæstaréttar.


Engu máli skiptir fyrir afgreiðsluna á kröfunni um málskostnað hvort ummælin teljast hafa verið hvöss eða ekki. Það sem máli skiptir er að hinn áfrýjaði dómur var á báðum áfrýjunarstigum staðfestur og það með sömu röksemdum og þar greindi og ég hafði teflt fram frá upphafi. Áfrýjandi hafði áfrýjað á tvö dómstig til að fá dómi hnekkt. Það tókst honum ekki. Hann fær ekki einu sinni breytt röksemdum dómanna. Ég er samt látinn bera háan málskostnað af þráhyggju hans við málsýfingarnar. Það er líka hreinlega ósatt að ummæli mín hafi verið eitthvað sérstaklega beinskeytt og hvöss. Þetta geta allir séð sem vilja með því einfaldlega að lesa viðkomandi kafla í bók minni. Ástæðan fyrir þessu orðagjálfri í dóminum er augljós. Dómararnir voru annað hvort hræddir við valdsmanninn eða kenndu í brjósti um hann vegna þeirrar niðurlægingar sem hann hafði orðið fyrir með afgreiðslu málsins á þremur dómstigum. Þeir sömdu því svona orðagjálfur til að réttlæta undandrátt sinn á að dæma mér þann rétt sem mér bar í þessu efni.


Ég fullyrði að enginn Íslendingur, annar en ógnandi valdsmaðurinn, hefði losnað undan skyldu til að greiða gagnaðila sínum málskostnað í máli þar sem eins háttar og í máli Benedikts gegn mér.


Hvað borgaði hann sjálfur?


Svo er annað atriði sem þjóðin á kröfu til að fá upplýsingar um. Það vakti athygli mína og lögmanns míns að lögmaður Benedikts lagði ekki fram neinar upplýsingar fyrir dóminn um kostnaðinn sem Benedikt hefði haft af málsýfingum sínum. Hvernig stóð á því? Því hefur verið hvíslað í eyra mér að Benedikt hafi ekki greitt lögmanni sínum fyrir málastappið. Lögmaðurinn hafi verið sólginn í að fá að reka þetta mál fyrir hæstaréttardómarann, þar sem í því fælist langþráð upphefð fyrir hann. Að mínum dómi er nauðsynlegt að Benedikt Bogason forseti Hæstaréttar upplýsi um þetta með nákvæmri greinargerð studdri greiðslugögnum um málskostnaðinn sem hann hafði af málinu. Grunsemdir um að þessi valdamikli dómari þiggi á laun greiða frá starfandi lögmönnum í landinu eru ekki ásættanlegar. Þess vegna verður hann undanbragðalaust að gefa þessar upplýsingar.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

bottom of page