Jón Steinar Gunnlaugsson
Mogginn

Við gamlingjarnir látum á sjá með aldrinum. Ég er t.d. hættur að skrifa greinar í Moggann eins og ég gerði reglulega um áratuga skeið. Ég hef þess í stað skrifað pistla á Fasbókarsíðu mína og birt þær líka jafnóðum á heimasíðu skrifstofu minnar jsg.is. Líklega hefur dregið eitthvað úr eldmóði við greinarskrifin þó að ég telji þau áfram einkennast af viðhorfum um frelsi og ábyrgð sem ég vil sjá stjórnmálin í landinu einkennast af í miklu ríkari mæli en nú er orðið. Samt fæ ég yfirleitt athugasemdir frá lesendum greinanna sem oftast telja þær eiga erindi og láta í ljósi ánægju með þær. Ætli ég eigi því ekki eftir að halda þessum skrifum áfram um sinn, a.m.k. meðan ég hef þrek til og einhver nennir að lesa.
Nú er svo komið að Mogginn er eina dagblaðið sem gefið er út á landsvísu og kemur út daglega. Dofnað hefur yfir stjórnmálaskrifum blaðsins og sýnir það ekki sömu snerpu í því efni og áður. Mér finnst blaðið frekar leggja áherslu á að geðjast öllum. Í því felst undanlátsemi við viðhorf þeirra sem telja afskipti ríkisins af málefnum borgaranna sjálfsögð í miklu ríkari mæli en áður var. Þetta birtist líka í efnistökum blaðsins um almenn málefni í þjóðlífinu. Kannski er þetta afleiðing af því að ekki eru lengur gefin út blöð sem boða öndverða stefnu við þá sem Mogginn hefur lengst af staðið fyrir. Mogginn varð 110 ára fyrir nokkrum dögum. Ég er áskrifandi að blaðinu og les það á hverjum degi. Mér finnst blaðið vera besta fréttablaðið sem gefið er út hér á landi. Á hinn bóginn tel ég að stjórnmálaskrif blaðsins ekki lengur helgast af þeirri hugsjón um frelsi og ábyrgð sem áður var, hvað sem því veldur.
Ég var blaðamaður við blaðið um skamma hríð á fyrstu árum starfsævi minnar og rennur því blóðið til skyldunnar. Ég skrifaði fréttir af Alþingi og svo var mér trúað fyrir að skrifa stundum pistla í Staksteina, sem ætlast var til að birtu m.a. hvassa gagnrýni á sameignarstefnu stjórnmálanna. Á þessum árum voru stjórnmálaskrifin í blaðinu talin geta skipt máli um framvindu mála. Þau byggðu í grunninn á sömu stjórnmálahugsjón og ég hef sjálfur haft alla tíð og viljað byggja skrif mín á þó að birt væru á öðrum vettvangi. Ríkisafskipti eru nú einkennandi fyrir gang stjórnmálanna í landinu. Brýn þörf er á að blaðið sýni hvasst andóf gegn þeim sósíalísku viðhorfum sem stjórna þessu.
Ég læt það nú eftir mér að hvetja blaðið til dáða. Mér finnst að blaðið ætti að skera upp herör gegn sósíalismanum og láta skrif sín aðallega snúast um hugsjónina um frelsi og ábyrgð og hvort sjónarmið um þessa hugsjón hafi þau áhrif á gang mála í landinu sem verðugt væri.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður