• Jón Steinar Gunnlaugsson

Misskilningur veirufróðra


Alþingi hefur nú sett lög til breytingar á sóttvarnarlögum. Með lögunum er ráðherra veitt meira vald en áður til að skylda ferðamenn til dvalar í sóttvarnarhúsi meðan þeir sæta einangrun.


Ekki er ástæða til að gera athugasemdir við að ráðherra sé tímabundið veitt aukið vald í þessum efnum, þar sem beita þarf nauðsynlegum úrræðum til að fást við veiruskrattann sem hefur gert okkur lífið leitt að undanförnu.


Það er hins vegar dálítið undarlegt að sjá gagnrýni á lögin beinast að því að óeðlilegt sé að veita ráðherra þetta vald. Þekktir vísindamenn hafa birt skoðanir af þessu tagi. Nær væri að sóttvarnarlæknir hefði það beint sjálfur. Og það sjónarmið sést jafnvel skjóta upp kollinum að stjórnmálamenn séu til bölvunar, þegar beita þarf lagavaldi til skerðingar á frelsi borgara, þeim sjálfum til verndar.


Hér virðast einhverjir hafa gleymt meginreglum sem samfélag okkar vinnur eftir. Í fyrsta lagi kjósum við stjórnmálamenn til að beita ríkisvaldi þegar við á. Tilgangurinn með því að kjósa þá er að fela þeim slíkt vald í hendur, enda bera þeir stjórnskipulega ábyrgð á meðferð þess, m.a. með því að vera kosnir til ákveðins takmarkaðs tíma.


Ætla verður að gagnrýni af þessu tagi eigi rót sína að rekja til misskilnings á því hvernig lýðræðislegu valdi er fyrir komið í því samfélagi sem við byggjum. Veirufróðir vísindamenn ættu því að einskorða orðræðu sína við það sem þeir hafa vit á en leiða hjá sér athugasemdir um að aðrir en lýðræðislega kjörnir fulltrúar eigi að ráða vegferð annarra manna í sóttarvörnunum.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður