• Jón Steinar Gunnlaugsson

Minnisblaðið hræðilega


Í málflutningi af hálfu Benedikts Bogasonar í málinu sem dæmt var í Hæstarétti s.l. föstudag lagði hann mikla áherslu á að ég hafi í febrúar 2012, meðan málið gegn Baldri Guðllaugssyni var til meðferðar í Hæstarétti, afhent samdómurum mínum minnisblað í því skyni að hafa áhrif á dóm þeirra. Það er vandséð hvaða þýðingu þetta hefur í máli sem höfðað er gegn mér í nóvember 2017 vegna ætlaðra meiðyrða í bókarkafla sem kom út í byrjun þess mánaðar. Samt varði lögmaður Benedikts drjúgum málflutningstíma í þetta minnisblað. Dómarar hefðu auðvitað átt að stöðva þennan málflutning, þar sem hann kom dómsmálinu ekkert við. Eins konar blaðafulltrúi dómaraelítunnar, sem starfar hjá Fréttablaðinu, gerði þetta að sérstöku frásagnarefni í frétt um sýknudóminn nú. Áður hafði Benedikt afhent fjölmiðlum minnisblaðið. Mikill bragur á því hjá starfandi hæstaréttardómara.


Ljóst er að þessum málflutningi var einungis ætlað að sverta mig í augum dómsins og gera mig að tortryggilegri persónu. Ég sé því ástæðu að fara um þetta nokkrum orðum og birta þá um leið minnisblaðið sem átti að hafa þessi áhrif í málinu nú.


Það hefur verið algengt að dómarar við Hæstarétt leggi til efni um mál sem þar eru til meðferðar, þó að þeir sitji ekki í dómi. Fullyrðingar um annað eru hafðar uppi í þeirri vissu að ekki sé unnt að fá réttar upplýsingar um þetta frá réttinum sjálfum.


Málið gegn Baldri var fyrsta málið í Hæstarétti, sem varðaði ákærur á hendur einstaklingum eftir hrunið. Mér varð strax ljóst hvernig vindar blésu á dómaraganginum í Hæstarétti á þessum tíma. Menn biðu hreinlega eftir tækifæri til að láta hrunið til sín taka og sýna þjóðinni að tekið yrði fast á málum. Það var því fyrirfram ljóst að hér var hætta á að sá grandvari maður Baldur yrði fyrir spjótalögum af þessum sökum. Ég setti því niður á blað nokkur atriði um lagaleg atriði sem vörðuðu innherjasvik, en ákæran á hendur Baldri var um slík svik.


Minnisblaðið fer á eftir í orðréttri útgáfu:


„Spurning: Er refsivert að selja hlutabréf ef sá sem selur veit eitthvað (neikvætt) um hlutafélagið sem „markaðurinn“ veit ekki? Svar: Nei. Þetta er því aðeins refsivert, að um sé að ræða innherjaupplýsingar og sá sem selur teljist vera innherji. (Hér má hafa í huga að verðbréfamarkaður byggist hreinlega á því að þeir sem hafi viðskipti með hlutabréf hafi mismunandi vitneskju og skoðanir um viðkomandi hlutafélag; ekkert er athugavert við þetta nema annar þeirra búi yfir innherjaupplýsingum).


Spurning: Hvað eru þá innherjaupplýsingar? Svar: Þær upplýsingar sem efnislega uppfylla skilgreiningu 120. gr. laganna (“nægilega tilgreindar upplýsingar”) og skylt er að birta almenningi samkvæmt 1. mgr. 122. gr. Upplýsingarnar falla aðeins undir skilgreininguna fram að birtingu þeirra (síðari málsliður 121. gr.)


Spurning: Voru það innherjaupplýsingar í LÍ, að breskir og hollenskir eftirlitsaðilar með fjármálafyrirtækjum létu í ljós áhyggjur af því að innistæðutryggingakerfi bankans væri ófullnægjandi fyrir hagsmuni innlánseigenda á Icesave reikningum í þessum löndum? Svar: Nei. Almenningi var kunnugt um hvernig innistæðutryggingakerfi LÍ var fyrir komið. Hugleiðingar og tilmæli hinna erlendu eftirlitsaðila sem lutu að þessu geta ekki hafa verið tilkynningaskyldar, fyrr en þessir aðilar tóku formlega ákvarðanir innan valdheimilda sinna um að takmarka starfsemi LÍ í þessum löndum. Sjálfsagt hefði LÍ orðið skylt að birta upplýsingar um slíkar ákvarðanir almenningi ef þær hefðu verið teknar.


Spurning: Hvað þarf að liggja fyrir til þess að manni verði refsað samkvæmt 123. gr.? Svar: A. Tilgreina verður nákvæmlega með fullnægjandi rökstuðningi hvaða upplýsingar bar að birta almenningi (vafaatriði ber að túlka sakborningi í hag samkvæmt almennum reglum). B. Hinn sakaði maður verður að teljast hafa verið innherji (121. gr.). C. Sanna verður að hann hafi búið yfir upplýsingunum þegar hann seldi (123. 1. gr.).“


Allir sem lesa þetta sjá að hér var ekki um neitt annað að ræða en hlutlausar ábendingar um lögfræðina í málinu. Ég hefði eins getað skrifað blaðagrein um þetta. Það er bara fyndið að dómarinn mikli skuli telja afhendingu þessa blaðs í febrúar 2012 skipta máli, þegar hann stefnir mér fyrir ummæli í bók sem kom út í nóvember 2017.


Eftir stendur aðeins, að dómararnir hefðu betur tileinkað sér þann lögfræðilega fróðleik sem fram kom í minnisblaði mínu. Þá hefði ekkert dómsmorð verið framið.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður