top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Minning um Pál Bergþórsson

Tengdafaðir minn Páll Bergþórsson er látinn. Ég kynntist dóttur hans Kristínu á árinu 1972, þegar hún var 19 ára og ég 24. Við höfum verið saman síðan. Og ég því verið þátttakandi í fjölskyldulífi þessa mæta manns í rúma hálfa öld.

 

Á netsíðu Vísis voru núna eftir andlátið rifjaðir upp ýmsir þættir í starfs- og æviferli Páls. Þar er m.a. sagt að hann hafi verið staðfastur sósíalisti og tekið á yngri árum þátt í ýmsum trúnaðarstörfum á vettvangi sósíalista.

 

Sá sem ekki þekkir til gæti þess vegna að spurt hvort ekki hafi verið stirt á milli okkar tengdafeðganna af þessum sökum, þar sem ég hef löngum lýst viðhorfum sem stangast á við þau sem hér að framan er lýst.

 

Því er til að svara að þvert á móti voru samskipti okkar alla tíð vinsamleg og á jákvæðum nótum. Þau einkenndust af gagnkvæmri virðingu og kurteisi, enda var Páll hreinasti heiðursmaður og einstaklega ljúfur í allri framkomu. Raunar fannst mér oftast að við værum jafnvel meira sammála en ósammála, t.d. um réttindi borgaranna til orðs og æðis.

 

Páll var kvæntur mikilli sómakonu, Huldu Baldursdóttur, sem er öllum sem kynntust henni afar minnisstæð. Hún andaðist á árinu 2013. Við bárum öll mikla virðingu fyrir henni og þótti afar vænt um hana. Ég tel að hún hafi haft mikil og varanleg áhrif á eiginmanninn, sem og þrjú börn þeirra.

 

Samskipti Páls við og börnin okkar Kristínar einkenndist líka af vináttu og ást. Þau voru enda mjög hænd að honum og þótti vænt um hann, eins og best kom fram nú á síðustu stundum lífs hans.

 

Páll Bergþórsson var í öllum skilningi stór maður sem lét ekki þvarg daganna villa sig af leið. Eftirmælin hans nú sýna þetta betur en nokkuð annað.


Jón Steinar Gunnlaugsson

תגובות


bottom of page