• Jón Steinar Gunnlaugsson

Minna en hálf sagan sögð


Nýlega kom út bókin „Hæstiréttur Íslands í hundrað ár“. Fram kemur í formála bókarinnar að rétturinn standi sjálfur fyrir þessari útgáfu. Sagnfræðingurinn Arnþór Gunnarsson var fenginn til að skrifa bókina en yfir honum sat ritnefnd sem Hæstiréttur skipaði. Í henni áttu m.a. sæti fyrrverandi dómarar við réttinn.


Í nýjustu útgáfu netmiðilsins Stundarinnar er að finna grein um hluta af efni þessarar bókar. Þar er einkum fjallað um það sem í bókinni segir um skipan tveggja dómara að réttinum á árunum 2003 og 2004. Þeir eru Ólafur Börkur Þorvaldsson, sem ennþá er starfandi, og undirritaður, Jón Steinar Gunnlaugsson, sem var skipaður á árinu 2004 en lét af störfum 2012.


Meginefni þessarar umfjöllunar er að halda því fram að þessir tveir dómarar hafi verið skipaðir á pólitískum forsendum og ekki verðskuldað starfið. Er m.a. reynt að gera lítið úr þekkingu þeirra á lögfræði. Þetta skaðar mig svo sem ekki mikið því ég hef sjálfur gefið út allmargar bækur sem eru vitnisburður um hvað ég kann fyrir mér í fræðunum. Er mér kunnugt um að flestir þeir sem hafa áhuga á lögfræðinni og beitingu hennar við réttinn hafa kynnt sér efni bóka minna og kvarta ég ekki yfir ummælum þeirra um efni skrifa minna. Slíkt hið sama á ekki við um Ólaf Börk. Ég hef hins vegar látið uppi þá skoðun mína, að hann standi líklega öllum öðrum dómurum, sem nú starfa við réttinn, framar í lögfræðilegum efnum. Kannski það eigi eftir að skýrast betur í framtíðinni, þegar hann verður laus undan þeim hömlum á tjáningu sem setan í dómaraembætti leggur á menn.


Það er óvenjulegt í svona afmælisriti að taka fyrir einstaka menn sem starfað hafa við stofnunina sem um er fjallað og halla á þá orðinu með þeim hætti sem Stundin greinir frá. Mikið hefur blessuðum mönnunum legið á og þá líklega helst þeim sem nú, furðulegt nokk, gegnir embætti forseta réttarins. Þessu ræður rökstudd og efnismikil gagnrýni mín á störf réttarins í fortíðinni, m.a. störf hans. Mér er kunnugt um að forsetinn og sumir hinna kveinka sér undan gagnrýni minni, þó að þeir hafi ekki treyst sér til að svara henni. Mér finnist að þeir hefðu átt að vera menn til að standa beint og milliliðalaust að tjáningu sinni um það. Þeir hafa ekki treyst sér til þess en fengið í staðinn sakleysingja úr röðum sagnfræðinga til að tala fyrir sína hönd og látið réttinn borga kostnaðinn um leið og þeir komu sér upp fyrirkomulagi til að stjórna skrifum hans. Þetta er hins vegar undarlegra þegar sómamaðurinn Ólafur Börkur á í hlut. Hann er nú á 61. aldursári og hefur starfað sem dómari við réttinn í nær 20 ár. Skemmst er frá því að segja að hann hefur sýnt afburðahæfni til þessa starfs og á flekklausan feril allan þennan tíma. Oft kann málum að vera svo háttað að þeir sem minna mega sín á viðkomandi sviði veitast að þeim sem standa þeim framar. Kannski það sé reyndin hér.


Hitt er svo rétt að við skipun mína á árinu 2004 var svo sannarlega brotið gegn lögum. Fólst það í ólögmætum ráðstöfunum dómara, sem þá sátu í réttinum, til að reyna að hindra skipun mína. Var það sýnilega vegna gagnrýni minnar sem þeir höfðu ekki treyst sér til að svara. Líklega hefur háttsemi sumra þeirra þá hreinlega verið refsiverð, þó að ég hafi á sínum tíma ákveðið að fylgja því máli ekki eftir. Ég segi frá þessari atburðarás í bók minni „Í krafti sannfæringar“, sem út kom á árinu 2014 og vísast þar til 14. kafla bókarinnar á bls. 267-289. Þar geta menn lesið reyfarakennda frásögn af háttsemi nafngreindra manna úr dómaraaðlinum, sem aldrei hafa þurft að bera neina ábyrgð á henni. Þar á meðal voru nokkrir sem áður höfðu beinlínis óskað eftir að ég sækti um embætti en ég ekki viljað á þeim tíma. Man ég vel eftir því, þegar áhrifamesti dómarinn á þessum árum, Markús Sigurbjörnsson, spurði mig með hvíslandi rödd sinni í símtali, hvort hann mætti ekki skrifa fyrir mig umsókn um embætti við réttinn. Síðar hefur hann velt sér á hina hliðina í bæli sínu og fer ég í bók minni yfir atvik sem sýnilega hafa ráðið því.


Þeir sem nú ráða réttinum munu ekki ríða feitum hesti af framferði sínu við að segja sögu af þeim atburðum sem hér er fjallað um. Ég minni þá samt á orðatiltækið um að batnandi mönnum sé best að lifa, og óska að þeim takist að bæta ráð sitt svo verða megi réttinum til framdráttar og virðingar meðan þeir gegna ennþá embættum sínum.


Jón Steinar Gunnlaugsson er fyrrverandi dómari við Hæstarétt