top of page
  • Writer's pictureJón Steinar Gunnlaugsson

Kulnun í vinnunni


Nú berast tíðindi af því að ríkisstarfsmenn, sem eiga að sjá um endurgreiðslur á virðisaukaskatti, geti ekki sinnt starfi sínu til fulls vegna kulnunar! Má fræðast um þessi skelfilegu tíðindi í frétt Morgunblaðsins laugardaginn 27. janúar s.l.


Í frétt blaðsins kemur fram að fyrirbærið kulnun hafi fyrst komið fram á árinu 1974. Vandamál hafi skapast við skilgreiningu á fyrirbærinu og mun fræðimenn hafa greint á um það efni. Meginskýringin virðist vera sú að starfsmennirnir verði þreyttir. Virðast þeir hafa notið veikindaforfalla vegna þess arna.


Ég trúi því vel að vinna við endurgreiðslu á virðisaukaskatti valdi því að starfsmenn verði loppnir í vinnunni, sérstaklega ef þeir eru látnir vinna við opna glugga í kuldunum sem hafa herjað á okkur að undanförnu.


Ekki munu finnast dæmi um að starfsmenn fyrri tíðar hafi kulnað svona heiftarlega í kroppnum eins og nú tíðkast hjá skattinum. Þá liggja ekki fyrir upplýsingar um að þessa sjúkdóms gæti hjá starfsmönnum einkafyrirtækja sem ekki fá laun sín greidd úr ríkissjóði.


Við þessu verður snarlega að bregðast. Réttast væri að fjölga ríkisstarfsmönnum verulega og þá sérstaklega þeim sem kólnar hjá skattinum. Fyrirtæki sem fá virðisaukaskatt endurgreiddan munar sjálfsagt ekkert um að endurgreiðslurnar verði lækkaðar svo nota megi aurana sem sparast til að greiða laun þeirra sem bætast við hjá skattinum og verður kalt í vinnunni.


Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður

Comments


bottom of page