Nú líður að því að Íslendingar kjósi til Alþingis. Í mínum huga skiptir þá mestu máli fyrir kjósendur að velja það framboð sem líklegast er til að vilja framfylgja þeim stefnumálum sem þeir aðhyllast. Vill kjósandinn að í framtíðinni verði lögð áhersla á að atvinnustarfsemi í landinu verði í höndum einstaklinga sem bera sjálfir fjárhagslega ábyrgð á rekstri sínum? Eða vill hann fremur að sem mest starfsemi manna sé í höndum ríkisvaldsins og fjárins til hennar sé aflað með skattlagningu á borgarana?
Í hinum frjálsa heimi hefur ævinlega sannast að rekstur undir merkjum einstaklinga sé miklu árangursríkari heldur en ríkisrekstur, þar sem ríkið stundar alls kyns starfsemi sem það ætti alls ekki að sinna. Að auki er mönnum ljóst að mannréttindi eru miklu betur virt og vernduð í hinum fyrrnefndu ríkjum sem vilja virða frelsi og ábyrgð einstaklinganna í atvinnulífinu auk þess sem slík afstaða er til þess fallin að draga úr skattbyrði borgaranna.
Skafti Harðarson formaður Samtaka skattgreiðenda hefur birt lista yfir þá starfsemi sem ríkið hefur tekið í sínar hendur en ætti að láta einkaframtakið um. Ástæða er að beina því til kjósenda að kynna sér þennan boðskap og gera upp við sig hvort þeir vilji frekar hið frjálsa samfélag en samfélag ríkisafskipta og opinbers rekstrar. Flestir frjálshuga menn ættu ekki að eiga erfitt með að gera upp hug sinn.
Þó að flestir framboðsaðilar séu með mjög svo flekkaðan feril í þessum efnum ættu kjósendur að skoða hug sinn um hverjir eru líklegastir til að starfa í þágu frelsisns í framtíðinni. Í kosningum felst nefnilega afstaða til þjóðfélagshátta í framtíðinni en ekki fortíðinni, þó að frammistaðan þá geti vissulega gefið vísbendingar um framtíðina. Kjósendur ættu samt að muna að flokkar sem hafa brotið gegn meintum frelsishugsjónum sínum gætu verið fúsir til að bæta ráð sitt í þessum efnum.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður