
Ég hef sagt frá því áður hér á fasbókinni að ég hafi jafnan kosið Sjálfstæðisflokkinn í alþingiskosningum. Ástæðan er sú að mér hefur fundist hann standa nær afstöðu minni til frelsis og ábyrgðar en aðrir flokkar hafa gert. Ég hef séð að þetta er eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem hefur í orði sett í öndvegi stefnumál sem hafa best fallið að mínum.
Nú hefur hins vegar hlaupið snurða á þráðinn. Þessi flokkur hefur um langan tíma verið í samvinnu við ofstækisfullan vinstri flokk, Vinstri græna, og látið hann ráða allt of miklu um stjórn landsins. Í fyrrnefndri grein minni nefndi ég til sögunnar ýmis dæmi um þetta, þ.m.t. hrein lögbrot sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur látið þennan samstarfsflokk komast upp með og það án þess að gera einu sinni skilmerkilega grein fyrir andstöðu sinni við þau. Nú er svo komið að mikill fjöldi stuðningsmanna flokksins hefur sagt skilið við hann og kveðst vilja í kosningunum framundan fremur styðja aðra flokka. Hafa sumir, sem ég hef talið til skoðanabræðra minna, jafnvel fallist á að taka sæti á framboðslistum þeirra.
Hvað skal gera í þessari stöðu? Enginn annar flokkur hefur sett í stefnuskrá sína þau málefni sem ég hef talið tilheyra hugsjónum mínum í pólitík. Þó að Sjálfstæðisflokkurinn hafi í reynd svikið þau í stórum stíl á undanförnum árum er hann samt eini flokkurinn sem segist vilja hafa þau í öndvegi á veginum framundan. Er ekki annað að sjá að hann hafi nú áttað sig. Segist hann núna vilja bæta ráð sitt og setja á ný málefni frelsis og ábyrgðar í öndvegi stefnu sinnar. Enginn annar flokkur hefur gert þessa hugsjón að grundvelli sinnar stefnu og engan þeirra get ég af þeirri ástæðu hugsað mér að styðja.
Í þeirri stöðu sem upp er komin hef ég því ákveðið að treysta því að minn gamli flokkur vilji nú af einlægum huga bæta ráð sitt og taka á ný að upp stefnumál sín sem á fyrri tíð hafa aflað honum meira fylgis en aðrir flokkar hafa notið. Ég hef því ákveðið fyrir mitt leyti að kjósa hann og gefa honum nýtt tækifæri. Í því efni er ekki öðrum til að dreifa. Önnur framboð eru öll af því tagi að ég get ekki hugsað mér að styðja þau því reynsla mín segir mér að þeim sé ekki treystandi til að berjast fyrir þeim málefnum sem ég hef sett í öndvegi í mínu lífi.
Það kemur því að mínum dómi ekki annað til greina, en að gefa þessum fyrrverandi flokki mínum tækifæri á ný í þeirri von að hann hafi nú lært af reynslunni og muni ekki í framtíðinni svíkja þá stefnu sem hann segist ennþá vilja hafa í öndvegi, þrátt fyrir svikin við þau á undanförnum árum. Ég mun því krossa fingur og krossa við Sjálfstæðisflokkinn í kosningunum framundan.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður