Jón Steinar Gunnlaugsson
Killers of the Flower Moon

Ég fór að sjá kvikmyndina „Killers of the Flower Moon“ sem komin er til sýninga hér á landi. Þessi mynd er gerð af hinum fræga leikstjóra Martin Scorsese og skartar í aðalhlutverkum leikurunum Leonardo DiCaprio, Robert De Niro og Lily Gladstone. Söguþráður myndarinnar er um Osage-ættbálk indjána í Oklahoma í byrjun síðustu aldar, þegar fundist hafði olía í landi ættbálksins og aðkomumenn fluttu inn á svæðið í því skyni að koma undir sig landinu og þar með olíuauðnum sem þar var að finna. Þar er atkvæðamestur William Hale eða kóngurinn sem Róbert De Niro leikur og handbendi hans frændinn Ernest, sem leikinn er af DiCaprio. Segir sagan af ástarsambandi Ernests við Molly Burkhart sem er af Osage ættbálknum. Hún er snilldarlega leikin af Lily Gladstone, sem segja má að steli senunni í kvikmyndinni.
Meginefni myndarinnar er frásögn af glæpaverkum aðkomumannanna gegn fólkinu af þessum ættbálki. Er stuðst við raunverulega atburði. Tilgangurinn er að ná undir sig auðnum sem felst í olíulindunum á svæðinu. Aðgerðunum stjórnar William Hale og notar hann m.a. vitgrannan frænda sinn Ernest til að hafa milligöngu um að láta fremja morð á fólkinu úr ættbálkinum, sem átti stærsta hlutann af þessum auðæfum, og gera frændann að erfingja þess með því að kvænast Molly eftir að aðrir úr fjölskyldu hennar höfðu verið myrtir.
Þetta er stórkostleg kvikmynd. Lýsir hún illvirkjum manna sem ásælast auð og er ekkert heilagt í þeirri viðleitni. Þetta er stef sem fylgt hefur mannkyninu um aldaraðir og valdið því að með réttu má telja mannskepnuna grimmasta dýr jarðarinnar. Grófasta dæmið um slíka háttsemi er kannski dæmið um fjöldamorð Þjóðverja á gyðingum á árum síðari heimsstyrjaldarinnar í Evrópu.
Kvikmynd þessi er áhrifamikil lýsing á svona glæpaverkum. Sýnir hún vel hvernig fégræðgin leiðir menn til ólýsanlegra glæpa gagnvart fólki sem er vanbúið til að verjast slíkri háttsemi. Við lok myndarinnar eru flestir áhorfendur sjálfsagt fullir óhugnaðar. Er það ekki síst vegna þess að þarna er stuðst við atburði sem raunverulega áttu sér stað.
Í Morgunblaðinu 28. október birtist dómur um kvikmyndina. Er þar talið að á henni séu annmarkar sem felast í því að frásögnin snúist meira um glæpaverk aðkomumanna en lifnaðarhætti þeirra sem fyrir þeim verða. Þetta er skrítinn dómur. Auðvitað er áhersla lögð á framferði þeirra sem glæpaverkin fremja. Um það fjallar myndin. Ég segi bara við lesendur: Farið og sjáið þessa harmþrungnu kvikmynd og látið ekki sérkennilegan dóm í þessu „blaði allra landsmanna“ fæla ykkur frá því. Kvikmyndin styrkir okkur í þeirri afstöðu að fordæma glæpi sem framdir eru til þess að auðga þá sem glæpina fremja. Við höfum svona háttsemi fyrir augunum daglega, þó að hún sé ekki jafn harmþrungin og lýst er í þessari kvikmynd.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður