• Jón Steinar Gunnlaugsson

Illur púki?


Það gerist nú slag í slag að dómar falla við Mannréttindadómstól Evrópu (MDE), þar sem Hæstiréttur Íslands er talinn hafa brotið rétt á sakborningum í refsimálum. Þetta er afar slæmt og ætti raunar að hafa verið alger óþarfi. Það er vegna þess að meginreglur um réttarstöðu sakaðra manna í refsimálum eru frekar einfaldar og ættu að vera öllum fram gengnum lögfræðingum ljósar. Verkefni dómstóla í refsimálum er umfram allt að gæta þess að öll skilyrði til sakfellingar á sakborningum séu uppfyllt. Séu þau það ekki á ekki að kveða upp áfellisdóma. Svo einfalt er það.


Einfaldar meginreglur


Hinar einföldu meginreglur eru nokkurn veginn þessar:


  1. Lýsing brots sem ákært er fyrir þarf að vera nægilega nákvæm til að geta varðað við verknaðarlýsingu þess lagaákvæðis sem ákæra greinir.

  2. Lagaákvæðið þarf að heimila refsingu fyrir brot.

  3. Handhafi ákæruvalds þarf að færa fram sannanir um brot þannig að hafið sé yfir skynsamlegan vafa. Hafi verið sýknað í héraði er yfirleitt ekki unnt að sakfella á efra dómsstiginu nema munnleg sönnunarfærsla hafi farið þar fram.

  4. Sakborningur þarf að njóta réttar til að verja sig. Til þess réttar heyrir að fá að kynna sér öll gögn máls og færa fram allar varnir sínar fyrir dómi, oftast með aðstoð skipaðs verjanda.

  5. Málsmeðferð fyrir áfrýjunardómstól beinist að sama máli og dæmt var í héraði. Ekki fær staðist að áfrýjunardómstóll dæmi málið á öðrum grundvelli en gert var á neðra dómsstigi, enda er þá eins víst að sakborningur hafi ekki notið sanngjarns réttar til að verja sig fyrir efra dómsstiginu. Telji áfrýjunardómstóll meðferð máls í héraði gallaða getur hann fellt áfrýjaðan dóm úr gildi og lagt fyrir lægra dómstig að bæta úr göllum. Samt þarf að gæta þess að í þessu felist ekki ábending um að bæta úr annmörkum á málsókn handhafa ákæruvalds. Slíkir annmarkar geta einfaldlega átt að leiða til sýknu fremur en ómerkingar.

  6. Dómarar sem taka sæti í máli þurfa að uppfylla hæfiskröfur. Þá skal haft í huga að þeir mega ekki líta út fyrir að vera í þannig tengslum við sakarefnið að vanhæfi valdi, jafnvel þó að þeir séu það ekki.


Dómarar við áfrýjunardómstól þurfa fyrst og fremst að „tikka í boxin“ sem hafa að geyma framangreind atriði. Hlutverk og metnaður dómara hlýtur að beinast að því að sakfella ekki nema öll þessi tilgreindu skilyrði séu uppfyllt. Alltaf.


Reyndin er samt sú að fjölmargir áfellisdómar hafa fallið á hendur sökuðum mönnum án þess að þessi skilyrði, eitt eða fleiri, hafi verið uppfyllt. Þetta hefur leitt mikla harma yfir sakborningana og ástvini þeirra. Í mörgum tilvikum hefur þetta fólk hreinlega verið rænt lífshamingju sinni.


Af nógu hefur verið að taka


MDE getur ekki sinnt öllu sem aflaga kann að hafa farið við málsmeðferðina hér innanlands. Til dæmis getur hann almennt ekki endurskoðað rangar skýringar á lögum, eins og til dæmis ákvæði almennra hegningarlaga um umboðssvik svo þekkt dæmi sé tekið. Dómstóllinn þar ytra athugar aðeins hvort brotinn hafi verið réttur sem Mannréttindasáttmáli Evrópu kveður á um. Samt hefur verið af nógu að taka, því áfellisdómar hafa fallið á hendur Íslandi fyrir brot á fjölda þeirra atriða sem nefnd voru að framan og eiga að vera íslenskum lögfræðingum auðveld í framkvæmd.


Alvarleg frávik


Ég starfaði sem dómari við Hæstarétt um átta ára skeið og taldi mig þá og einnig síðar sjá alvarleg frávik frá framangreindum meginreglum. Ég verð að viðurkenna að ég skil hvorki upp né niður í að lögfræðingarnir við dómstólinn skuli ekki einfaldlega hafa fylgt þeim. Þeim átti öllum að vera þessar reglur vel kunnugar og metnaður þeirra hlaut að eiga að beinast að því að sakfella ekki sakborninga í refsimálum nema þeim væri framfylgt í hvívetna. Samt hefur það verið gert í stórum stíl.


Það er hreinlega eins og illur púki hafi náð að tylla sér meðal dómaranna og haft afgerandi áhrif á dómsýslu þeirra. Það lítur þannig út fyrir að einhvers konar furðulegur erindrekstur hafi náð að festast í sessi við þessa helgustu stofnun réttarríkisins.


Úrlausnir MDE eru ekki bindandi að íslenskum landsrétti. Þær fela samt oft í sér þýðingarmiklar ábendingar um landsrétt okkar og framkvæmd hans á sviði mannréttinda. Nú þurfum við að fást við úrlausnarefni sem fjölmargir áfellisdómar MDE hafa gefið tilefni til. Það hefði átt að vera óþarfi, aðeins ef dæmt hefði verið hér innanlands eftir skýrum íslenskum lagareglum sem vernda mannréttindi.


Skilningsleysi


Undanfarin ár hef ég reynt að sinna þeirri skyldu minni að upplýsa almenning um ámælisverða dómsýslu æðsta dómstóls þjóðarinnar. Ekki hafa verið góð mótttökuskilyrði fyrir þeim boðskap. Mörgum virðist vera sama um að misfarið sé með dómsvaldið svo lengi sem þeir verða ekki sjálfir fyrir slíku. Réttmæti boðskaparins fær nú aukna stoð í úrlausnum dómstólsins í Strassborg. Ég segi fyrir mig að þessar staðfestingar á réttmæti ábendinga minna gleðja mig ekki. Þær valda mér miklu fremur sorg yfir því að þessi helgasta stofnun okkar, sem Hæstiréttur er, skuli hafa talið sig geta hagað störfum sínum svona. Við ættum að taka höndum saman um að gera þær breytingar sem þarf til að létta þessu böli af þjóðinni. Ég hef sjálfur hugmyndir um hverjar þær ættu að verða en læt kyrrt liggja að sinni.


Jón Steinar Gunnlaugsson er fyrrverandi dómari við Hæstarétt

© 2018 JSG lögmenn, Skólavörðustíg 12, 101 Reykjavík og Kaupvangi 6, 700 Egilsstöðum. Netfang: upplysingar@jsg.is. Sími: 5301230.

  • s-facebook
  • s-linkedin